Landsréttur hefur dæmt Íslensku óperuna til að greiða Þóru Einarsdóttur óperusöngkonu 638.168 krónur vegna eftirstöðva æfingalauna, launatengdra gjalda og yfirvinnu. Kröfu Þóru um greiðslu dráttarvaxta var aftur á móti vísað frá dómi.
Íslenska óperunni var einnig gert að greiða Þóru 2,8 milljónir króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.
Þóra gerði samning við Íslensku óperuna um hlutverk Súsönnu í uppfærslu þess síðarnefnda á óperunni Brúðkaup Fígarós. Tekist var á það fyrir dómi hvort Íslenska óperan hefði efnt að fullu skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.
Í dómi Landsréttar var fallist á það með Þóru að gildissvið kjarasamnings Félags íslenskra hljómlistarmanna og Félags íslenskra leikara um kaup og kjör söngvara hefði náð til samnings hennar við Íslensku óperuna þótt þar hafi verið samið um greiðslu verklauna, að því er kemur fram í dóminum.
Talið var að réttarsambandið milli Þóru og Íslensku óperunnar hefði, um annað en greiðslu verklauna, haft einkenni hefðbundins vinnuréttarsambands. Því væru ákvæði samnings sem þau gerðu um lakari kjör en kveðið var á um í kjarasamningnum því ógild.