Á stríðstímum verður líkami kvenna vígvöllur. Nauðgunum hefur verið beitt sem vopni og líkaminn notaður í skiptum fyrir nauðsynjar á borð við fæði, húsnæði og lyf, svo eitthvað sé nefnt.
Áhrif stríðs á konur eiga það til að gleymast en aðeins karlmenn skipa nú sendinefndir sem fara fyrir samningaviðræðum um frið milli Rússlands og Úkraínu. Mikilvægt er að konur fái sæti við borðið, til að fleiri sjónarmið en karlmanna fái að heyrast.
Þetta segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, en átaksverkefni UN Women og 66°Norður var kynnt í dag á Bessastöðum. Þar fékk Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands styrktarbol afhentan, sem fer í sölu eftir nokkrar vikur. Allur ágóði mun renna til UN Women í Úkraínu.
Bolurinn var hannaður í sameiningu af listakonunum Þórdísi Claessen og hinni úkraínsku Irene - Ирина Камєнєва, sem kom til Íslands fyrir örfáum mánuðum, eftir að henni varð ljóst að hún gat ekki dvalið í heimalandi sínu vegna stríðsins.
Stella segir mikilvægt að hafa fengið Irene til liðs við verkefnið, enda gaf hún ómetanlega innsýn inn í úkraínska menningu. Þá sé verkefnið einnig til marks um hve mikilvægt það er að taka á móti flóttamönnum en það styrki m.a. fjölbreytileika á Íslandi.
Eins og áður sagði mun ágóðinn af bolnum renna til UN Women í Úkraínu, þar sem mörg verkefni eru aðkallandi.
„Stærstu verkefni okkar núna eru þessi kvenmiðaða neyðaraðstoð, að horfa til sérstækra þarfa kvenna í neyð. Konur og börn eru núna 90 prósent þeirra átta milljóna sem eru á flótta. Það er oft horft framhjá því að stríðsátök hafa líka áhrif á konur, þótt þær séu ekki alltaf í þessum eiginlegu bardögum. Þær eru hins vegar á flótta innan síns lands og utan, með börnin. Þær eru óvopnaðar en hins vegar er líkami þeirra oft vígvöllur,“ segir Stella.
„Það er reynt að nota líkamann í skiptum fyrir aðgang að húsnæði, fæði, lyfjum og öðru. Svo eru nauðganir notaðar sem stríðsvopn og við erum nú þegar farnar að sjá það. UN Women er að tryggja að þær konur sem beittar hafa verið kynbundnu ofbeldi eða nauðgunum fái aðgang að kvennaathvörfum, að þær fái sálfræðistuðning og lögfræðiaðstoð.“
UN Women styrkir konurnar einnig fjárhagslega, svo þær geti aflað sér helstu nauðsynja en það skiptir m.a. máli til að hægt sé að koma í veg fyrir að staða þeirra sé misnotuð.
Þá hafa samtökin einnig verið að vinna að því að fá aðskilin rými fyrir karla og konur í flóttabúðum og að konur hafi þar aðgengi að upplýsingum.
„Svo hvetjum við aðrar stofnanir að huga að þessum þörfum.“
Engin kona hefur enn fengið sæti við borðið í friðarviðræðum en bæði sendinefndir Rússlands og Úkraínu eru aðeins skipaðar karlmönnum. Stella segir mikilvægt að bæta úr þessu.
„Það þarf að þrýsta á að konur taki þátt í samningaviðræðum. Í friðarviðræðum milli stríðandi fylkinga eru engar konur,“ segir Stella.
„Hvernig getum við komið á friði þegar við tölum ekki við helming þeirra sem eiga hlut að máli? Það er atriði sem skiptir miklu máli og UN Women beitir sér fyrir.“