Ferðamenn eru sagðir forvitnir um styttuna

Frá afhjúpun listaverksins Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku.
Frá afhjúpun listaverksins Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku. mbl.is/Hrefna Magnúsdóttir

Styttan af Guðríði Þorbjarnardóttur verður í dag sett á ný á stall á fæðingarstað hennar, Laugarbrekku á Snæfellsnesi. Bæjarstjórinn í Snæfellsbæ á von á því að sú athygli sem styttan hefur fengið undanfarnar vikur muni leiða til þess að enn fleiri ferðamenn leggi leið sína að styttunni en áður hefur verið.

Styttu Ásmundar Sveinssonar, Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku, var stolið frá Laugarbrekku í byrjun apríl og dúkkaði síðan upp sem hluti af listaverki í Reykjavík. Lögreglan tók styttuna í sína vörslu. Eftir nokkurt þóf var hún afhent fulltrúa áhugamannahópsins, sem stóð fyrir því að afsteypu af verki Ásmundar var komið fyrir á fæðingarstað Guðríðar á Laugarbrekku árið 2000.

Kristinn Jónasson.
Kristinn Jónasson. mbl.is/Sigurður Bogi

Ör eftir þjófana sjást

Síðustu daga hefur verið unnið að því að sjóða saman undirstöður styttunnar og verður hún sett á sinn stað í dag, við athöfn sem hefst klukkan fjögur. Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, segir að sárið í undirstöðunum muni alltaf sjást, eins og ör í andliti fólks sem verður fyrir áverkum, og verði til minningar um það sem gerðist í apríl.

Komið hefur fram að Guðríðar- og Laugarbrekkuhópurinn muni gera kröfu um að þeim verði bætt það tjón sem þau hafa orðið fyrir vegna þjófnaðarins.

Við athöfnina verður saga Guðríðar Þorbjarnardóttur sögð og rifjuð upp ferð Snæfellinga í Vatíkanið, með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta, þar sem Benedikt XVI páfa var færð sams konar afsteypa af styttunni að gjöf.

Geta nú sagt tvær sögur

Kristinn segir að leiðsögumenn ferðahópa og almennir ferðamenn hafi verið að spyrja hvenær styttan færi á sinn stað. Á hann von á því að fleiri muni gera sér ferð að styttunni á Laugarbrekku en áður. Bendir Kristinn á að leiðsögumenn geti nú sagt ferðamönnum tvær sögur, annars vegar sögu Guðríðar og hins vegar af þjófnaði styttunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert