Borgarráð hefur samþykkt tillögu þess efnis að þrjár götur í 2. og 3. áfanga Ártúnshöfða fái heitin Eistlandsbryggja, Lettlandsbryggja og Litháensbryggja.
Tillagan var upphaflega flutt og samþykkt í skipulags- og samgönguráði í byrjun þessa mánaðar.
Í greinargerð með henni kemur fram að sterkt tengsl séu milli Íslands og Eystrasaltsríkjanna og í öllum þremur höfuðborgum þeirra síðarnefndu megi finna götur og torg sem kennd eru við Ísland.
„Í Vilníus má finna Íslandsstræti og Íslandstorg eru í Ríga og Tallinn. Til að undirstrika gagnkvæm vináttutengsl þjóðanna þykir rétt að nefna þrjár götur í nýju hverfi við Ártúnshöfða eftir Eistlandi, Lettlandi og Litháen,“ segir í greinargerðinni.
Við afgreiðslu málsins í borgarráði lögðu fulltrúar í ráðinu ásamt áheyrnarfulltrúum Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins fram svohljóðandi bókun:
„Í öllum höfuðborgum Eystrasaltsríkja eru torg eða götur kenndar við Ísland. Þann vináttuvott er nú rétt að endurgjalda. Það fer vel á því að Eistland, Lettland og Litháen fái götur á þessum mikilvæga stað í nýja Ártúnshöfðahverfinu.“
Þessar nýju götur verða í Bryggjuhverfi vestur, sem er hluti af þeirri miklu uppbyggingu sem er fram undan við Elliðaárvog og á Ártúnshöfða. Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar óskaði í maí 2021 eftir tilboðum í gerð landfyllingar í Bryggjuhverfi vestur. Þetta verður fyrsti áfangi af þremur en alls eru áformaðar landfyllingar þrettán hektarar að stærð. Þegar tilboð voru opnuð kom í ljós að þau voru öll langt yfir kostnaðaráætlun, eða á bilinu 204-269%. Var ákveðið að hafna öllum tilboðunum.