Styttan af Guðríði aftur sett á stall

Snæfellingar komu styttunni aftur upp í dag. Kristinn Jónasson bæjarstjóri …
Snæfellingar komu styttunni aftur upp í dag. Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsnesbæjar stillti sér upp ásamt landeigendum og Ragnildi Sigurðardóttur framkvæmdastjóra Svæðisgarðs Snæfellsness. mbl.is/Alfons

Stytta af hinni víðförlu og kraftmiklu konu, Guðríði Þorbjarnardóttur, var aftur sett á stall sinn á fæðingarstað hennar á Laugarbrekku á Snæfellsnesi í dag. 

Styttu Ásmund­ar Sveins­son­ar, Fyrsta hvíta móðirin í Am­er­íku, var stolið frá Laug­ar­brekku í byrj­un apríl en síðar birtist hún sem hluti af listaverki í Reykjavík. Lög­regl­an tók stytt­una í sína vörslu.

Lista­kon­urn­ar tvær sem numdu styttuna á brott sögðu að ástæðan væri sú að í verki Ásmund­ar fæl­ist rasísk­ur und­ir­tónn.

Þótti viðeigandi að konur settu styttuna á stall aftur

„Við höfum fengið hana í hendur frá lögreglunni og vorum að setja hana aftur á sinn stað. Þegar við settum hana upp voru það konur sem settu hana á stall aftur,“ segir Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ og bætir við það hafi þótt viðeigandi. 

„Hér var fjölmenni og þetta tókst vel í þessu góða veðri og höfðu gaman af því þegar farið var yfir sögu hennar Guðríðar,“ segir hann.

Guðríður var íslenskur landkönnuður, fædd fyrir árið 1000, og talin ein víðförlasta kona heims en að því er sögur herma sigldi hún átta sinnum yfir úthöf og ferðaðist fótgangandi um þvera Evrópu.

Hún var fædd á Íslandi en sigldi þaðan til Grænlands og þaðan til Vínlands en frásögn af henni er í Eiríks sögu rauða en einnig í Grænlendinga sögu. 

Svæðismark Snæfellsness kynnt 

Fyrr í dag var kynning á svæðismarki Snæfellsness, Breiðabliki, í Eyja- og Miklaholtshreppi þar sem sveitarstjórnum, sveitarstjórum og öðrum aðilum var unnt að kynna sér hvað það er sem gerir bæinn sérstakan. 

Boðið var upp á veitingar af Snæfellsnesi; „rabarbara-mojito“ með ætum blómum frá ræktunarstöðinni Lágafelli og bauð Keli vert í Langaholti upp á fiskisúpu og skel. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert