Dúxaði í Verzló: „Stefndi aldrei á þetta“

Helgi Hrannar Briem tekur við verðlaunum frá Guðrún Ingu Sívertsen, …
Helgi Hrannar Briem tekur við verðlaunum frá Guðrún Ingu Sívertsen, skólastjóra Verzlunarskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Helgi Hrannar Briem var dúx Verzlunarskóla í Íslands og voru honum gær veitt verðlaun við brautskráningu stúdenta sem fór fram við hátíðlega athöfn í hátíðarsal skólans. Helgi útskrifaðist með meðaleinkunn upp á 9,79.

Helgi segist vera mjög ánægður með árangurinn. Spurður um hvort að hann hafi haft mikinn tíma til að sinna öðru meðfram náminu segir Helgi um algengan misskilning að ræða. 

„Mér finnst það svolítið algengur misskilningur að ef maður dúxar þá hljóti maður að eyða öllum klukkutímum sólarhringsins að læra en maður kemst mjög langt á að fylgjast vel með í tímum,“ segir Helgi og bætir við að hann hafi unnið með skóla og sé mikið í útivist.

Helgarnar nýttar í fjallgöngur og skíði

Nefnir Helgi þá að hann hafi verið í björgunarsveitinni í Kópavogi með skólanum og að helgarnar hafi oft verið nýttar í fjallgöngur og skíði. Aðspurður segir Helgi að björgunarsveitarstarfið hafi ekki truflað hann í náminu og að það hafi ekkert endilega verið markmiðið að dúxa í skólanum. 

„Nei nei ég stefndi aldrei á þetta þannig séð. Þetta var ekkert markmiðið ef ég hefði fengið kannski 9,6 sem er ágætis einkunn hefði ég ekkert orðið pirraður á því dúxa ekki. Ég hugsaði þetta kemur bara ef þetta kemur,“ segir Helgi en segist samt mjög ánægður að hafa dúxað.

Þá segist Helgi vera að stefna á fjármálaverkfræði í haust og er búinn að sækja um í Háskólanum í Reykjavík fyrir haustið.

Í verðlaun fyrir þennan árangur fékk Helgi bókaverðlaun og 500 þúsund króna námsstyrk frá skólanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert