Dúxinn kom breyttur heim frá Þýskalandi

Dúx, rektor og semidúx á brautskráningu menntaskólans við Hamrahlíð í …
Dúx, rektor og semidúx á brautskráningu menntaskólans við Hamrahlíð í gær. Iðunn Björg Arnaldsdóttir er til vinstri á myndinni. Í miðjunni er Steinn Jóhannsson og til hægri er Lóa Floríansdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Iðunn Björg Arnaldsdóttir útskrifaðist í gær frá Menntaskólanum við Hamrahlíð með eina hæstu einkunn í sögu skólans en hún var með 9,82 í meðaleinkunn. Hlaut hún fyrir það Menntaverðlaun Háskóla Íslands.

Spurð út í lykilinn að svona góðum námsárangri segist Iðunn ekki endilega hafa lagt sig áberandi mikið fram á fyrsta árinu sínu í MH en hafi síðan farið í skiptinám til Þýskalands á öðru ári og að þá hafi hugarfarið gagnvart náminu breyst. 

„Ég lærði betri námstækni þar og þegar ég kom heim náði ég betur að slaka á og var ekki jafn mikið að stressa mig yfir náminu,“ segir Iðunn og bætir við að hún hafi lært að fá nægan svefn í Þýskalandi og að það hafi munað miklu fyrir lærdóminn að sofa vel.

Engin pása frá lærdómnum

Aðspurð segist hún vera að stefna á læknisfræði í haust. Bendir hún á að inntökuprófið fyrir læknisfræðideildina sé eftir minna en tvær vikur og því ekki um að ræða neina pásu frá lærdómnum fyrir hana. 

Segist hún hafa tekið stutt hlé á lærdómnum í gær til að fagna útskriftinni en að hún sé komin aftur með hugann við lærdóminn í dag. Eftir inntökuprófið heldur Iðunn áfram að læra en hún mun læra efnafræði í Háskóla Íslands á virkum dögum í sumar því hún mun keppa á ólympíumótinu og norðurlandamótinu í efnafræði í júlí. Stefnir hún á að taka smá pásu frá lærdómnum í ágúst. 

Þá stundar Iðunn líka frjálsar af kappi og var á æfingu á hverjum degi með skóla, en þrátt fyrir stífa dagskrá fann hún alltaf tíma til að læra hér og þar. „Ég bara lærði á meðan ég borðaði morgunmat og í strætó á leiðinni í skólann og í hádegishléinu á meðan ég borðaði hádegismat,“ segir Iðunn kímin.

Aldrei fleiri útskrifast af opinni braut

136 nemendur brautskráðust frá Menntaskólanum við Hamrahlíð í gær, en aldrei hafa fleiri útskrifast af opinni braut en það voru 70 nemendur.

Semidúx var Lóa Floríansdóttir Zink sem útskrifaðist af opinni braut með 9,61 í meðaleinkunn en hún hlaut einnig viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í frönsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert