„Fjandinn laus þessa nóttina“ að sögn lögreglu

Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt. mbl.is/Eggert

Það var í nógu að snúast hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt, en um 100 mál voru skráð hjá lögreglu í gærkvöldi og í nótt og tíu einstaklingar gistu í fangaklefa fyrir hin ýmsu brot. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. „Eftir rólega föstudagsnótt varð fjandinn laus þessa nóttina,“ segir orðrétt í dagbókinni.

Meðal þeirra mála sem skráð voru hjá lögreglu var líkamsárás í miðborginni, en einn var handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna málsins. Árásarþoli fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Maður og kona voru  handtekin í hverfi Kópavogi vegna líkamsárásar og eignaspjalla og voru þau bæði vistuð í fangaklefum.

Þá var maður handtekinn í Grafarvogi vegna líkamsárásar og vistaður í fangaklefa, en hann réðst á nágranna sinn.

Margir í annarlegu ástandi 

Lögregla þurfti að hafa afskipti af nokkrum einstaklingum í annarlegu ástandi í nótt. Sumir voru einfaldlega ósjálfbjarga vegna ölvunar en aðrir voru til vandræða.

Einn neitaði að gefa upp nafn, hafði í hótunum og reyndi að sparka í lögreglu. Var hann vistaður í fangaklefa. Þá var annar maður í annarlegu ástandi handtekinn fyrir að angra gesti í miðbænum og var hann vistaður í fangaklefa þar sem hann var ekki í ástandi til að vera á meðal fólks.

Í Garðabæ þurfti lögregla að hafa afskipti af manni í annarlegu ástandi sem hafði dottið af rafmagnshlaupahjóli og slasast á höfði. Var hann fluttur á slysadeild með með sjúkrabifreið til aðhlynningar.

Í Breiðholti stöðvaði lögregla framleiðslu fíkniefna og var einn aðili handtekinn vegna málsins, en sleppt að lokinni skýrslutöku.

Þá kviknaði eldur í fyrirtæki í hverfi 104 og urðu töluverðar skemmdir.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert