Á Laufásvegi stendur hvítt steinhús sem hefur þá sérstöðu að hafa tilheyrt sömu fjölskyldu síðan það var byggt árið 1929. Það var Ásmundur Guðmundsson dósent, síðar biskup, sem byggði það ásamt föðurbróður sínum, Magnúsi Helgasyni skólastjóra Kennaraskólans. Magnús var barnlaus, en Ásmundur átti stóra fjölskyldu. Síðar bjó þar einn sona hans, Tryggvi Ásmundsson læknir. Þar næst tók dóttir Tryggva við húsinu, en þar býr hún nú ásamt manni og börnum, þar á meðal nýstúdentinum Tryggva Ásmundi Briem. Tryggvi yngri er því af fjórðu kynslóðinni sem býr í þessu fallega húsi. Tilefni heimsóknar blaðamanns er að spjalla við þá nafna, en Tryggvi eldri er einmitt 65 ára stúdent í ár, en báðir eru þeir stúdentar frá Menntaskólanum í Reykjavík. Stúdentsveislur Tryggvanna tveggja eru því haldnar á nákvæmlega sama stað, í sömu stofu, með 65 ára millibili.
Það er ekki úr vegi að byrja á að rifja upp minningar menntaskólaáranna og bera saman bækurnar. Tryggvi eldri hefur fyrstur orðið.
„Þegar ég var í MR skiptust nemendur í tvö horn; þeim sem fannst óskaplega gaman í skólanum og hinum sem fannst hræðilega leiðinlegt. Ég var svo heppinn að mér fannst óskaplega gaman. Það byggðist á því að ég var í klíku. Við vorum fimm saman og það var alltaf skemmtilegt hjá okkur,“ segir Tryggvi en hann var í stærðfræðideild. Á þeim tíma voru deildirnar tvær; máladeild og stærðfræðideild.
Tryggvi, sem lagði svo fyrir sig lungnalækningar, segist alls ekki hafa ætlað sér að verða læknir, en vinahópurinn hafði áhrif á valið.
„Við fimm ákváðum að enginn okkar ætti að fara í sama fag. Við ætluðum okkur stóra hluti og yrðum því að mennta okkur á breiðu sviði. Framan af átti ég að verða verkfræðingur og annar vinur minn læknir. Síðan snerist það við því hann var kominn með kærustu og okkur þótti sýnt að hann myndi þurfa að fara að stofna heimili. Þess vegna snérum við þessu við í sjötta bekk; ég yrði læknir en hann verkfræðingur,“ segir hann og þetta voru því samantekin ráð.
„Hinir stóðu allir við sitt. Einn varð guðfræðingur, annar lögfræðingur, sá þriðji arkitekt, fjórði verkfræðingur og ég læknir.“ segir hann.
Vinirnir héldu góðu sambandi alla ævi, en þrír þeirra eru nú látnir.
„Vinskapurinn hófst áður en við fórum í MR. Guðmund Kristin Guðmundsson þekkti ég frá fæðingu og man ekki eftir mér öðru vísi en við værum vinir. Á Fjólugötu bjó Ólafur B. Thors, en við Guðmundur hittum hann í Ísaksskóla. Leikfélagi hans var Þórður Þorbjarnarson og við kynntumst honum í barnaskóla. Í gagnfræðaskóla bættist við Björn Björnsson, en þeir Guðmundur Kr. höfðu kynnst í barnaskóla. Í landsprófi vorum við orðnir óaðskiljanlegir og vinskapurinn entist ævilangt.“
Það er kominn tími til að heyra aðeins í Tryggva yngri, sem setið hefur hjá okkur og hlustað á afa sinn rifja upp gamla tíma. Tryggvi segir menntaskólanámið hafa gengið afar vel og að skólinn hafi verið skemmtilegur, en hann útskrifaðist nú á föstudaginn frá náttúrufræðideild MR.
Hann byrjar á að segjast enn vera að finna út úr því hvað tekur við í haust. Þegar viðtalið var tekið voru allar einkunnir utan stærðfræði komnar í hús.
„Ertu kominn upp fyrir mig?“ spyr afinn spenntur.
„Ég á eftir að fá úr ólesinni stærðfræði, þannig að ég veit það ekki. Ég hef smá svigrúm til að ná því,“ segir hann.
„Strákskrattinn stefnir að því að verða hærri en ég og ég verð að sætta mig við það. Ég er samt ekkert leiður yfir því,“ segir Tryggvi eldri og hlær.
Blaðamaður fær það út úr honum að stúdentseinkunnin hafi verið 8,72.
Og þú ætlar að verða hærri en afi?
„Ég stefni á það!“ segir ungi stúdentinn og brosir.
Þess má geta að eftir að viðtalið var tekið kom í ljós kom að nýstúdentinn rétt náði að „toppa“ afa sinn og fá hærri einkunn á stúdentsprófi.
Hefur þú leitað til afa þíns og fengið aðstoð við námið?
„Já talsvert, alla vega í sögu. Það er svo mikið efni og það er þægilegra að afi útskýri það fyrir mér,“ segir hann og segist einnig hafa leitað til hans og beðið um góð ráð.
„Í lesinni stærðfræði þarf maður að standa fyrir framan kennara og prófdómara og í fimmta bekk var ég gríðarlega stressaður. Þess vegna hringdi ég í afa fyrir munnlega stúdentsprófið í stærðfræði til að fá góð ráð.“
Hvaða ráð gafstu unga manninum?
„Ég gaf honum þau ráð að sofa vel nóttina fyrir prófið, líta ekki í bók í klukkutíma áður en hann gengi upp, jafnvel fara í smá göngutúr. Slaka vel á og ganga rólegur inn. Hugsa sig rólega um áður en hann byrjaði að tala eða svara spurningum. Það liggur ekkert á. Kennarinn getur vel beðið. Ég hef sjálfur verið kennari og séð fólk alveg lokast í munnlegum prófum.“
Tryggvi Ásmundur segir þessi ráð hafa hjálpað sér. Hann segist hafa lært vel fyrir stúdentsprófin.
„Þetta voru margar langar nætur,“ segir hann.
„Þá hefur hann brotið reglur afa síns; ég sagði honum að hann þyrfti alltaf að fá fullan svefn. Þarna kemst upp um hann,“ segir afinn í gríni.
Talið berst að dimmisjón og segir Tryggvi Ásmundur að bekkur hans hafi klæðst búningum teiknimyndafígúranna Lilo & Stitch. Afi hans upplifði öðruvísi skólalok.
„Þetta búningavesen var ekki byrjað þegar ég útskrifaðist sem betur fer. Við fórum á lóðina fyrir framan skólann og það var sungið og hrópað og um kvöldið var borðhald og ball. Stúdentsdagurinn sjálfur var mjög skemmtilegur. Það var athöfn á sal og síðan var tekin mynd af okkur á tröppunum og svo var ball kvöldið eftir á Hótel Borg. Ég man vel eftir þessu balli.“
Bauðstu dömu upp í dans?
„Já, ég held ég hafi látið mig hafa það,“ segir hann og hlær dátt.
„Við vorum 18 strákar í mínum bekk og ég fékk að bjóða þeim heim í kaffi, en það var ekki á sjálfan útskriftardaginn. Stúdentsveislan var haldin heima í stofu. Þá kom bara nánasta fjölskylda. Stúdentsveislur voru miklu minni þá en nú,“ segir hann.
Hvernig tilfinning er það að klára menntaskóla?
„Það er mjög góð tilfinning og ég er spenntur fyrir framtíðinni. Veislan verður hér í húsinu og ég býð 60-70 manns. Svo verður partí um kvöldið og á laugardaginn júbílantaball,“ segir Tryggvi og Tryggvi eldri segist ætla að mæta í Háskólabíó, horfa á barnabarnið útskrifast og halda sjálfur upp á 65 ára stúdentsafmælið.
Við förum að slá botninn í skemmtilegt viðtal í fallegu stofunni í fjölskylduhúsi þeirra nafna. En áður en blaðamaður heldur á brott dregur afinn fram gamla bók sem faðir hans Ásmundur biskup átti eitt sinn. Hana fékk hann í MR sem viðurkenningu fyrir „iðni, siðprýði og framfarir“ eins og ritað er á hana. Bókin Menneskeaandens sejre frá 1904 fjallar um uppfinningar.
„Ég ætla að gefa stráknum þessa bók, hún er nokkuð merkileg.“
Ítarlegt viðtal er við Tryggva Ásmundsson og Tryggva Á. Briem í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.