„Hefur mikla þýðingu fyrir mig persónulega“

Þóra Einarsdóttir óperusöngkona.
Þóra Einarsdóttir óperusöngkona. mbl.is/Golli

Þóra Einarsdóttir óperusöngkona vann á föstudaginn mál gegn Íslensku óperunni fyrir Landsrétti. Landsréttur staðfesti þá með dóm sínum að Íslenska óperan hafi brotið gegn kjarasamning sem hún gerði við stéttarfélög FÍH (Félag íslenskra hljómlistarmanna) og FÍL (Félag íslenskra leikara) árið 2000.

Braut Íslenska óperan þá gegn kjarasamningnum með því að greiða söngvurum lægri greiðslu en þær lágmarksgreiðslur sem kjarasamningurinn segir til um meðan á æfingartímabili stendur, virða ekki vinnuverndarákvæði samningsins, neita að greiða yfirvinnu samkvæmt kjarasamningnum og neita að greiða launatengd gjöld. 

Forsaga málsins

Umræddar æfingar þar sem brotið var gegn kjarasamningnum voru fyrir uppsetninguna á Brúðkaupi Fígaros árið 2019. Boðaði þá Íslenska óperan einsöngvara sýningarinnar á æfingar langt umfram vinnuverndarákvæði í umræddum kjarasamningi. Að sögn Þóru var æfingaálagið það mikið að söngvarar höfðu áhyggjur af raddheilsu sinni og heilsu almennt. 

Var þá ekki dregið úr æfingaboðum þrátt fyrir að söngvarar hefðu ítrekað lýst yfir áhyggjum við óperustjóra. Reiknuðu þá söngvararnir út greiðslu sem þeir ættu að fá fyrir yfirvinnu en þeirri kröfu var hafnað af óperustjóra og fullyrti hann að kjarasamningurinn hefði ekkert gildi.

Ákvað Þóra þá að taka málin í sínar eigin hendur og höfðaði mál fyrir Héraðsdómi og stefndi Íslensku óperunni fyrir að brjóta gegn kjarasamning og krafðist þess að Íslenska óperan myndi greiða yfirvinnu og launatengd gjöld samkvæmt kjarasamningi.

Héraðsdómur dæmdi óperunni í vil

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að um frjálsan verksamning væri að ræða og þar af leiðandi frjálst að semja undir lágmarksviðmiðum kjarasamningsins. 

Segir Þóra að þessi dómur Héraðsdóms hafi sett alla samninga um verkefnaráðningar sviðslistafólks í uppnám og skapaði mikla óvissu meðal söngvara um hver réttarstaða þeirra væri gagnvart Íslensku óperunni. 

Þar sem að málið hafði mikið fordæmisgildi fékk Þóra leyfi til að áfrýja dómnum til Landsréttar og snéri Landsréttur dómnum við og staðfesti að Íslenska óperan hafi ekki farið að lögum við samningsgerð við söngvara fyrir uppsetningu verksins Brúðkaup Fígaros. Féllst Landsréttur á rök og kröfur Þóru Einarsdóttur að öllu leyti.

Mikill léttir að málinu sé lokið

Ljóst þykir að dómurinn muni hafa fordæmisgildi og að sögn Þóru er málið mikilvægt réttindamál fyrir söngvara og að hennar mati sýnir niðurstaðan að söngvarar líkt og aðrar starfsstéttir eiga rétt á að njóta lágmarkskjara og réttinda. „Þetta hefur mikið fordæmisgildi fyrir allar þessar verkefnaráðningar þegar stofnanir hafa samninga við stéttarfélög,“ segir Þóra.

Segir Þóra að málið hafa mikla þýðingu fyrir sig persónulega. „Þetta hefur mikla þýðingu fyrir mig persónulega, ég er náttúrulega búin að vera standa í þessu núna í þrjú ár.“ Segir Þóra þetta einnig vera mikinn létti eftir niðurstöðu héraðsdóms sem að hennar mati var skrítin.

Segir hún í lokin að það sé frábært að málinu sé lokið að það sé komin rétt niðurstaða í málið loksins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert