mbl.is ræddi við Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóra Samtakanna 78, í dag um grein um málefni trans barna sem birtist á vef Stundarinnar á föstudaginn en greinin hefur verið mikið á milli tannanna á fólki. Daníel segir greinina hafa vond áhrif á trans ungmenni og aðra og byggjast á rógburði.
Aðspurður segir Daníel að greinin komi á mjög erfiðum tíma. „Hún kom daginn eftir umfjöllun í Kastljósinu um ofbeldi í garð trans ungmenna og hvaða áhrif það getur haft og mér finnst þetta mjög sérstök umfjöllun,“ segir Daníel og bætir við að hann einfaldlega skilji ekki þessa umfjöllun eða hvert markmið hennar er.
„Ég skil ekki hvað þessi grein á að segja okkur, því það er ekki verið að segja okkur neitt. Þetta er bara rógburður,“ segir Daníel og bendir á að hægt sé að segja slæmar sögur af flest öllum læknismeðferðum.
Að sögn Daníels hefur svona umfjöllun einungis þau áhrif að trans ungmennum og fólki líði verr og að aðstandendur verði hræddari um börnin sín. Nefnir Daníel að auðvitað megi gagnrýna hlutina en þá verði að gera það rétt og gera það af nærgætni gagnvart þessum viðkvæma hópi. Að mati Daníels var það ábótavant í umræddri grein Stundarinnar.
Daníel segir að vísun í rannsóknir í greininni sé marklaus. „Þarna er verið að draga eitthvað úr rannsóknum héðan og þaðan og ekki sagt til fulls hvert niðurlag þeirra rannsóknar er.
Grein Stundarinnar vakti mikla gagnrýni í samfélaginu og þá sérstaklega ummæli Björns Hjálmarssonar, yfirlæknis á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL). Björn hefur síðan beðist fyrirgefningar á ummælum sínum og dregið þau til baka sem að Daníel fagnar.
„Þessi ummæli eru í besta falli óheppileg en hann baðst fyrirgefningar og segist bera fullt traust til trans teymisins á BUGL sem er mjög gott. Teymið þar er frábært og hafa þau verið að byggja upp gott starf undanfarið. Við tökum auðvitað þessari afsökun gildri og höldum bara áfram fyrir þessa krakka,“ segir Daníel.
Að lokum ítrekar Daníel hve mikilvægt það er að sýna þessum hópi virðingu. „Ég hvet alla fjölmiðla til að kíkja á leiðbeiningabæklinginn sem að Trans Ísland var að gefa út fyrir nokkru síðan sem má finna inn á heimasíðu þeirra. Gott væri líka fyrir alla að kynna sér þetta málefni,“ segir Daníel og bendir á að það geti allir alltaf haft samband við þau hjá Samtökunum 78 til dæmis inn á vef samtakana.