Yngvi Pétursson, fyrrverandi rektor og kennari Menntaskólans í Reykjavík, hefur látið af störfum eftir 50 ára kennslu við skólann.
„Ég er afar sáttur við starfsferil minn og sérstaklega ánægjulegt samstarf með þessu yndislega fólki sem hér er,“ segir Yngvi í samtali við mbl.is.
Farsæll og ánægjulegur tími með nemendum er það sem stendur upp úr eftir árin 50, að sögn Yngva.
Yngvi hefur barist fyrir bættu húsnæði skólans og gegn styttingu framhaldsskólanna. Yngvi segist ekki hafa náð góðum árangri í þeim málum og þess vegna hafi hann látið af störfum sem rektor á sínum tíma.
„Bæði komst ég ekki áfram með húsnæðismálin og síðan barðist ég gegn þessari styttingu námstímans sem fór í gegn þrátt fyrir það.“
Yngvi segist vona að einhverjar breytingar muni eiga sér stað í þessum efnum. „Ég vona það en mér sýnist nú að það sem ég varaði við á sínum tíma hafa verið umdeilt.“
Yngi var viðstaddur fyrsta Júbilantaball skólans frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á sem fram fór í Origo-höllinni að Hlíðarenda á laugardag. Segir hann stemninguna hafa verið góða.
„Hún var mjög fín, alveg glæsilegur dansleikur og það var vel að þessu staðið. Stærsta Júbilantaball sem haldið hefur verið,“ segir hann og bætir við að um 800 gestir hafi sótt dansleikinn.
„Þrír af hverjum fimm árgöngum skólans voru að halda upp á Júbilantaafmælið sitt, þarna voru stúdentaárgangar sem voru núna í vor og síðan síðustu tveggja ára og svo allir sem voru að halda upp á stúdentsafmælið sitt sem er haldið á fimm ára fresti.“
„Ég var þarna að halda upp á mitt 50 ára afmæli frá því í fyrra,“ bætir hann við.