„Við erum að kaupa en þetta er allt í gegnum Evrópusambandið, því það er náttúrlega slegist um þessi bóluefni. Evrópusambandið hefur virkað sem miðlægur aðili varðandi það bóluefni sem er fáanlegt. Það er náttúrlega til í takmörkuðu upplagi. Við fáum bóluefni líka,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. í samtali við mbl.is. Ekki er vitað hve margir skammtar berast til Íslands en hann telur að það muni taka mið af höfðatölu.
Spurður um bóluefnið, segir hann það hafi verið framleitt gegn bólusótt. Bólusótt var fyrsti sjúkdómurinn sem var bólusett gegn í heiminum, þ.á.m á Íslandi. Sjúkdómnum var útrýmt í heiminum með bólusetningu. Hérlendis eru til bóluefni gegn bólusótt, en þeim fylgja miklar aukaverkanir og yrðu því aldrei notuð. Hann segir að nú sé komin þriðja kynslóðin af þessum bóluefnum, sem hafi óverulegar aukaverknair og virki ágætlega. Þeim bóluefnum er unnt að beita gegn apabóluveirunni. „Apabóla og bólusótt eiga marga eiginleika sameiginlega. Þetta er sama gerð af veiru, þótt apabólan sé miklu vægari en bólusótt. Bóluefnin virka gegn báðum þessum veirum.“
Hann segir að ekki sé unnt að segja til um hvenær bóluefnin berast til Íslands. Hann kveðst binda vonir við að menn hafi hana tiltæka eins fljótt og auðið er. Spurður hversu líklegt það sé að apabóluveiran muni koma til Íslands segir hann:
„Það er erfitt að segja nákvæmlega til um það í sjálfu sér. Ég held að við eigum að líta svo á að hún geti komið hingað og muni jafnvel koma hingað. Þannig að við verðum bara að reyna að undirbúa okkur sem best með því að fræða almenning og heilbrigðisstarfsmenn, undirbúa greiningargetu og skipuleggja viðbrögð okkar við veirunni. Þannig að ég held að við verðum að gera ráð fyrir að hún komi hingað.“
Ekki þarf að óttast annað Covid-tímabil en að sögn Þórólfs mun ekki verða gripið til sambærilegra ráðstafana. „Þetta er allt önnur staða og allt öðruvísi smit af völdum apabólu en af völdum Covid til dæmis. Við erum ekki að tala um eins smitnæma veiru og eins hraða útbreiðslu og var í Covid, þannig að nálgunin yrði aðeins öðruvísi,“ segir hann og bætir við að það yrði hins vegar gripið til svipaðra aðferða til að hefta útbreiðslu smits af völdum apabólu, t.d. einangrun. Ekki yrði hins vegar gripið til jafn víðtækra takmarkana og gripið var til þegar Covid-faraldurinn reið yfir miðað við stöðuna núna.