Dró að sér þrjár milljónir sem lögráðamaður

Úr dómssal. Mynd úr safni.
Úr dómssal. Mynd úr safni. mbl.is/Þorsteinn

Kona á sextugsaldri var í dag dæmd í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Vesturlands fyrir fjárdrátt og brot í opinberu starfi sem skipaður lögráðamaður brotaþola með því að hafa á árunum 2016 til og með 2020 dregið sér í alls 178 tilvikum samtals rúmar þrjár milljónir króna af bankareikningum brotaþola hjá Landsbankanum og millifært á eigin bankareikning. 

Fyrir dómi játaði konan skýlaust að hafa framið þau brot sem henni voru gefin að sök, auk þess sem konan samþykkti bótakröfu brotaþola. 

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að hún var skipaður lögráðamaður brotaþola og var þannig í stöðu til að ráðstafa fé hans. Var litið svo á að hún hafi verið opinber starfsmaður í skilningi hegningarlaga. Á hinn bóginn var litið til þess að konan var með hreint sakarvottorð auk þess sem hún gekkst greiðlega við brotum sínum hvoru tveggja við rannsókn málsins og fyrir dómi. 

Auk skilorðsbundins fangelsis var konan dæmd til að greiða brotaþola málsins rúmar þrjár milljónir króna í skaðabætur auk þóknunar réttargæslumanns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert