Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir það vel koma til greina að önnur heilsugæslustöðin, sem reisa á á Akureyri, verði einkarekin. Slíkur rekstur hafi gefist vel á höfuðborgarsvæðinu og hafa kannanir varpað ljósi á mikla ánægju með þjónustu þeirra. Hann segir þó enga ákvörðun hafa verið tekna.
Þetta kom fram í máli hans á í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Þar spurði Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hvort ráðherra hygðist bjóða út rekstur annarrar heilsugæslustöðvarinnar sem til stendur að opna á Akureyri.
„Oft á tíðum hefur reynst erfitt að fá sérfræðinga, hvort sem er á sviði læknisfræði eða annarra sérfræðigreina í heilbrigðisgeiranum, til starfa á landsbyggðinni. Leiða má líkur að því að auknir valmöguleikar hvað varðar rekstrarform í heilbrigðisþjónustu hafi í för með sér að auðveldara verði að fá heimilislækna til starfa á Akureyri og því er mikilvægt að gera starfsumhverfi þeirra eins fjölbreytt og aðlaðandi og unnt er.
Nú hefur einkarekstur heilsugæslustöðva gefið góða raun og mælist ánægja og traust notenda til þeirra meira en heilsugæslustöðva sem reknar eru af hinu opinbera. Hins vegar eru allar einkareknar heilsugæslustöðvar landsins staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og hefur landsbyggðin setið hjá í þessari þróun,“ sagði Berglind Ósk Guðmundsdóttir í fyrirspurn sinni.
Willum sagði einkarekstur vel koma til greina, gæti það reynst skynsamlegt módel sem hentað vel.
„Þetta er bara á því stigi að það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um það enn þá. Af því að háttvirtur þingmaður kom inn á mönnunarvandann þá er þetta tvíþætt mál. Það eru alltaf áhyggjur þeirra sem eru að reka heilsugæslu fyrir að missa frá sér mannskap. Við erum í raun og veru alltaf í samkeppni um sama takmarkaða mannauðinn,“ bætti hann við.