„Við náðum að manna sumarið mjög vel og höfum því ekki lent í svipuðum vandamálum og flugvellir í Evrópu hafa lent í, að eiga erfitt með að fá fólk. Við höfum náð að halda uppi okkar þjónustustigi,” segir Brynjar Már Brynjólfsson, mannauðsstjóri Isavia, í samtali við mbl.is.
Töluvert hefur verið um tafir á flugvöllum Evrópu þar sem fólk hefur jafnvel misst af flugi sínu vegna langra biðraða á flugvöllunum. Brynjar segist ekki vita um dæmi um slíkt hér á landi. Hann segir að minna sé sótt í flugvallastörf en fyrir faraldurinn, sem ætti þó ekki að koma að sök.
„Við finnum það eins og aðrir flugvellir að fólk treystir okkur minna en það gerði áður. Vandamálið sem flugvellir eru að fást við í heiminum að oft er búið að ráða í sumarstarf fyrir síðustu tvö sumur og síðan hefur komið upp bakslag vegna Covid-19 og þá hefur þurft að afturkalla störfin eða að fækka þeim og það er talið vera ástæðan fyrir mönnunarvandanum í Evrópu. Það tekur smá tíma að vinna upp áhugann á störfum á flugvöllum,” segir Brynjar.
„Það eru færri sumarumsóknir heldur en oft áður en það er líka helgast af því að öll ferðaþjónustan er að keppast um fólk,” segir Brynjar en Isavia hefur ráðið 300 starfsmenn fyrir sumarið.
„Við erum að ljúka síðustu sumarráðningunum og horfum björt inn í sumarið,” segir Brynjar.