Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, kveðst standa með stefnu sinnar eigin hreyfingar í útlendingamálum. Aftur á móti séu þrír flokkar í ríkisstjórn sem ekki eru með sömu stefnu í þessum málaflokki. Hún segir það hlutverk allra þeirra sem sitja við ríkisstjórnarborðið að finna lausnir, líka þegar flokkarnir eru ekki fullkomlega sammála.
„Það er bara eðli þess að sitja í ríkisstjórn, að ég tali nú ekki um að leiða ríkisstjórn,“ sagði Katrín þegar hún svaraði fyrirspurn Lenyu Rúnar Taha Karim, þingmanns Pírata, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Lenya Rún vildi fá svör við því hvort Katrín stæði við stefnu eigin ríkisstjórnar í útlendingamálum og hvort hún ætli að láta dómsmálaráðherra einum eftir að sjá um þau mál án þess að hún skipti sér af.
„Hæstvirtur forsætisráðherra hefur talað um mikilvægi regluverks og þess að fara í heildstæða stefnumótun í þessum málaflokki og lætur það hljóma eins og það hafi engin slík stefnumótun farið fram.
Þvert á móti hefur stefnumótun ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum birst fjórum sinnum í frumvarpi sem blessunarlega hefur verið stöðvað þrisvar sinnum og verður vonandi stöðvað í það fjórða en umrætt frumvarp hefur verið rætt í 13 klukkustundir og 15 mínútur í þingsal frá því að það var lagt fram árið 2020,“ sagði Lenya.
Þá velti hún því upp hvort forsætisráðherra hafi ekki samþykkt frumvarpið fjórum sinnum út úr ríkisstjórn og hvort þetta frumvarp væri ekki einmitt stefnumótunin sem Katrín segðist kalla eftir.
„Ég fæ nefnilega ekki betur séð en að draumastefnumótun hæstvirts forsætisráðherra í útlendingamálum liggi fyrir. Annars hefði ríkisstjórnin sem hún leiðir ekki samþykkt þetta frumvarp fjórum sinnum.“
Katrín sagði það hafa verið gæfuspor þegar lög um útlendinga voru samþykkt árið 2016. Telur hún löggjöfina hafa staðist tímans tönn. Síðan að lögin tóku gildi 2017 hefur þó komið á daginn að ekki sé sátt um framkvæmd laganna og túlkun þeirra.
„Mín skoðun er sú að þær breytingar sem gerðar hafa verið, til að mynda sérstaklega hvað varðar tímafresti, sérstaklega hvað varðar málefni barna, og þeir tímafrestir styttir þannig að börn og fjölskyldur þeirra njóti forgangs þegar kemur að því að taka mál þeirra til meðferðar, ég held að það hafi verið skynsamlegar ráðstafanir.
En mín skoðun er sú að þessari löggjöf hefði átt að fylgja eftir með ákveðnu samráði um sýn og stefnumótun í málefnum útlendinga. Það kann vel að vera að háttvirtir þingmenn séu ósammála mér um það, en ég leyfi mér að benda á þá staðreynd að annars vegar tökum við á móti töluvert mörgu fólki á flótta sem fær hér vernd,“ sagði Katrín.
Þá sagði hún mikinn fjölda útlendinga koma hingað, sem ekki væri fólk á flótta, til að vinna.
„Mér finnst á það skorta að við sem stjórnkerfi — og ég get tekið mína ábyrgð á því sem forsætisráðherra — vinnum nægjanlega vel saman í því að tryggja lífskjör og lífsgæði allra þeirra sem hingað koma, hvort sem er til að leita ásjár í okkar verndarkerfi eða til að leita sér að tækifærum. Það er sú stefnumótun sem mig langar að sjá fara fram í þverpólitísku samráði,“ bætti Katrín síðar við.