Líkamsleifarnar sem lögreglan á Vestfjörðum gróf upp á föstudag tilheyra 19 ára pilti sem lést í umferðarslysi í Óshlíð, milli Hnífsdals og Bolungarvíkur, fyrir tæpum fimmtíu árum. Hann var farþegi í bíl sem talið er að hafi farið út af í blindbeygju.
Samkvæmt frétt Rúv varð slysið á Óshlíðarvegi hinn 23. september árið 1973. Leigubíll valt niður grýtta hlíð með þeim afleiðingum að farþegi lést. Tveir aðrir farþegar, maður og kona, sluppu og voru meiðsl þeirra minniháttar.
Í frétt um slysið, sem birtist í Vísi daginn eftir, segir að bíllinn hafi verið á leið frá Bolungarvík til Ísafjarðar. Þegar komið var í blindbeygju á Óshlíðarveginum hafi farartækið farið út af og oltið niður 60 til 70 metra langa snarbratta grjótskriðu, alla leið niður í flæðarmál. Pilturinn kastaðist út úr bílnum og lést. Hinir tveir farþegarnir sluppu hins vegar. Þeir komust upp á veg og gátu tilkynnt um slysið frá Hnífsdal.
Hinn 26. september birtist frétt í sama blaði þar sem fram kemur að við skoðun hafi komið í ljós að stýri bílsins hafi ekki verið í sambandi. Tekið fram að ekki hafi verið hægt að segja með fullri vissu hvort að sú bilun hafi valdið slysinu.
Segir þar einnig að enginn farþegi hafi verið spenntur í belti þegar slysið átti sér stað. Ökumaður bílsins hafi verið leigubílstjóri sem var vel kunnugur þessum vegi. Þá var nafns piltsins getið en hann hét Kristinn Haukur Jóhannesson, fæddur 1954, frá Barðaströnd.
Í frétt Rúv kemur fram að fjölskylda hins látna hafi haft efasemdir um rannsókn málsins. Þykir bíllinn of heillegur til þess að rökrétt þyki að hann hafi oltið niður hlíðina. Fóru þau fram á að rannsókn yrði tekin upp að nýju.
Lögreglan á Vestfjörðum greindi frá því fyrr í dag að henni hefði borist ábending um að umrætt slysaatvik hefði ekki verið upplýst nægjanlega á sínum tíma. Þrátt fyrir að langur tími sé liðinn eru taldar líkur á því að hægt sé að upplýsa nánar um tildrög atviksins sem um ræðir.
Eru líkamsleifarnar nú til rannsóknar hjá réttarlækni. Ekki er víst hvenær niðurstöður munu liggja fyrir.