Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, telur nauðsynlegt að bregðast við „þessu hrikalega ástandi“ er varðar lestrarkunnáttu íslenskra barna og ungmenna. Vill hann að ríkið beiti sér af meiri hörku í þessum málum og nefnir meðal annars dæmi frá öðrum löndum í Evrópu þar sem stjórnvöld hafa sett á lög um lestrarkennsluaðferðir.
Spyr hann mennta- og barnamálaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi, hvort að hann sé reiðubúinn að breyta námskrá grunnskólabarna þannig að það verði ein viðurkennd lestrarkennsluaðferð á landinu.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tók undir áhyggjur Eyjólfs og taldi ástandið ekki gott og að það þyrfti að laga. Hann sagði forvera sinn í embættinu, Lilju Alfreðsdóttur viðskipta og menningarmálaráðherra, hafa lagt mikla áherslu á þessi mál og að þegar sé hafin vinna við að bæta úr stöðunni sem þurfi að halda áfram.
„Við erum í rauninni að fylgja því eftir núna og hyggjumst fara í það og erum í samtali um það, bæði við Kennarasambandið og Samband íslenskra sveitarfélaga, hvernig við getum í auknum mæli aðstoðað skólakerfið miðlægt með skólaþjónustu til að styðja við nemendur en líka kennara og starfsfólk í skólasamfélaginu.
Það er því kannski ekki hægt að segja að það sé einhver ein patentlausn sem við séum að boða hér inn í framtíðina heldur bara jöfn og þétt samvinna á milli ríkis, sveitarfélaga og skólakerfis sem miðar að því að byggja áfram á þeim grunni sem hefur verð lagður síðustu ár,“ sagði Ásmundur Einar.
Eyjólfur þakkaði fyrir svarið en taldi þó vandamálið felast í því að ríkið „hafi ekki stjórnað þessum málum nægjanlega vel.“
„Ráðherra hefur frumkvæðisskyldu í þessu máli og það er alveg skýrt að þegar þessar tölur tala sínu máli, það er að ástandið sé hrikalegt, þá er það á ábyrgð ráðherrans, það er enginn annar sem ber ábyrgð á þessu. Það er enginn annar í samfélaginu sem ber ábyrgð á þessu. Ábyrgð ráðherrans á menntakerfinu og menntun barna er hjá honum samkvæmt umboði frá Alþingi.“
Þá tók hann dæmi um hvernig önnur ríki hafa verið að bregðast við og nefndi hann dæmi um að breska þingið hefði sett lög um hvaða lestrarkennsluaðferð ætti að nota eftir að Rose-skýrsla kom út árið 2006 sem varpaði ljósi á slæmt ástand þar í landi. Sama hafi verið gert í Frakklandi á sínum tíma. Segir hann þetta vera tvær helstu menningarþjóðir Evrópu.
„Spurningin er þessi: Er ráðherrann tilbúinn að setja það í námskrána þannig að það verði ein viðurkennd lestrarkennsluaðferð á landinu, sem er ekki í dag? Þetta virðist vera heimatilbúið kukl sem er í gangi núna en ekki viðurkenndar aðferðir.“
Ásmundur Einar segir skiptar skoðanir um hvaða aðferð henti best. Hins vegar sé í gangi tilraunaverkefni í Vestmannaeyjum, Kveikjum neistann, sem lýtur að þessu máli, þ.e. lögum um aðferðir við lestrarkennslu.
„Ég ætla ekki að standa hér í ræðustól Alþingis og þykjast vera sérfræðingur um þau mál. Hins vegar viljum við fylgjast með þessu tilraunaverkefni. Það er spennandi og það var sett af stað í samstarfi ríkis, viðkomandi sveitarfélags og sérfræðinga, bæði innlendra og erlendra, og vísindasamfélags. Það verður spennandi að fylgja því eftir og sjá hvaða ákvarðanir verða teknar í framhaldi af því.“