Soffía Steingrímsdóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítala, hefur ákveðið að segja upp starfi sínu vegna ástandsins á Landspítalans. Soffía segist hafa vonast eftir bættri aðstöðu á spítalanum en að mælirinn hafi fyllst í dag.
Í færslu á Facebook lýsir Soffía ástandinu á bráðamóttökunni í dag:
„Í dag voru 98 sjúklingar skráðir á bráðamóttökuna kl. 15, þar af voru 33 innlagðir sem eiga heima á deildum uppí húsi sem flest allar voru komnar með 2 yfir skráð rúm. Biðtími hjá sumum sjúklingum fór yfir 5 klst. Ég stóð vaktina frammi í biðstofu og tók á móti fólki til að forgangsraða veikindum fólks inná bráðamóttökuna, fólki sem margt hvert getur ekki leitað til heilsugæslunnar eða læknavaktar og þarf á þjónustu bráðamóttökunnar að halda. Þessir dagar eru farnir að vera normið frekar en undantekningin, ég elska starf mitt sem bráðahjúkrunarfræðingur og hef starfað við það sl. 7 ár en treysti mér ekki lengur til þess. Get ekki horft uppá þetta lengur.“
Í samtali við mbl.is segir Soffía að ástandið á spítalanum hafi farið versnandi síðustu ár:
„Ástandið er búið að vera svona síðustu fimm, sex árin og hefur farið stigvaxandi. Þegar við erum farin að reka eina til tvær legudeildir á bráðamóttöku – þá er bara komið gott. Og eins og í dag – að vera með tíu sjúklinga bráðveika í móttöku, sem komast ekki inn í stól eða bekk, fatlaða, þroskaskerta, veika – þá er bara mælirinn fullur,“ segir Soffía.
Hún segist ekki vera ein á báti.
„Það var töluvert um uppsagnir í lok mars – þær sáu fram á sumarið og treystu sér ekki í það, með hjúkrunarnema til þess að leysa af. Svo erum við allavega nokkrar núna sem bara leggjum árar í bát,“ segir Soffía.
Soffía segir að þrátt fyrir samtal við stjórnvöld sé engin lausn á ástandinu í sjónmáli.
„Við höfum átt fund með forstjóra spítalans og (heilbrigðis)ráðherra kom í heimsókn, en það hefur ekkert gerst.
Þetta versnar bara. Nú erum við að fá ferðamenn til landsins og þeir slasast og veikjast. Þetta bara eykst. Það er náttúrulega bara ömurlegt að hafa aldraða á göngum í jafnvel hundrað klukkutíma. Svo erum við líka að taka á móti fólki með andlega vanlíðan – að það þurfi að opinbera sig á biðstofu fyrir framan fullt af fólki er bara ömurlegt,“ segir Soffía.
Hún segist binda vonir við að ástandið lagist, en ekki sé útlit fyrir það á næstunni:
„Ég bara vona að þessi vandi verði leystur. Þetta er langtímavandamál, það þarf að bjóða hjúkrunarfræðingum sem eru úti í þjóðfélaginu í hundraða tali betri kjör og betri aðstæður svo að það þeir vilji koma til vinnu. Að við getum boðið fólki upp á almennilega heilbrigðisþjónustu; að það þurfi ekki að liggja á göngum eða bíða á biðstofu með verki í fleiri tíma. Það er alveg ömurlegt ástand.“
Vonar þú að þetta ástand eigi eftir að lagast?
„Við vonum það – en vonin dó í dag þegar ég gafst upp,“ segir Soffía.