Steingrímur Þór Ólafsson hefur verið dæmdur í sex ára fangelsi fíkniefnalagabrot, en hann var staðinn að umgangsmikilli amfetamínframleiðslu í sumarbústað í Kjós.
Jónas Árni Lúðvíksson hlaut sex mánaða fangelsisdóm fyrir hlutdeild í verknaðinum auk þess sem kona var dæmd í 60 daga fangelsi. Hún er eigandi sumarbústaðarins og reyndi að hylma yfir framleiðsluna þegar lögreglu bar að garði.
Þá fannst einnig umfangsmikil kannabisræktun á lóð sumarbústaðarins.
Haustið 2019 barst lögreglu ábending um að svokallaður amfetamínbasi hefði verið fluttur til Íslands. Við tók rannsókn lögreglu sem leiddi til þess að grunur féll á Steingrím Þór og Jónas Árna.
Þann 18. janúar veitti lögregla þeim eftirför upp í umræddan sumarbústað. Sást þá til þeirra innandyra með öndunargrímur fyrir vitum sér.
Um nóttina leit út fyrir að kviknað hefði í sumarbústaðnum og móða kom á öll gler hússins, eftir því sem fram kemur í dómi héraðsdóms. Var opnað út og móðan hvarf. Þetta endurtók sig í tvígang með stuttu millibili.
Fimm klukkustundum síðar yfirgáfu Steingrímur og Jónas sumarbústaðinn og höfðu bakpoka meðferðis. Óku þeir af stað í átt til höfuðborgarinnar og lögregla veitti þeim eftirför. Þegar þeir urðu hennar varir upphófust tilraunir til að komast undan lögreglu, sem tókst að þvinga bíl þeirra út af Suðurlandsvegi austan við Rauðavatn.
Í dóminum segir að mennirnir hafi setið sem fastast þrátt fyrir skipanir lögreglu að yfirgefa bílinn. „Ákærði Jónas hélt á tveggja lítra plastíláti sem hann opnaði og kastaði yfir lögreglumann sem opnaði dyrnar á bifreiðinni til að handtaka hann. Plastílátið var fullt af brúnu efni.“
Við fíkniefnarannsókn kom í ljós að þetta brúna efni var amfetamín. Í bakpokanum sem þeir höfðu meðferðis, fundust meðal annars fjórar rykgrímur, tvær öryggisgrímur og tvær síur á þær.
Þremenningarnir voru sakfelldir fyrir fíkniefnaframleiðslu í sumarbústaðnum.
Steingrímur var að auki sakfelldur fyrir að hafa í vörslu sinni amfetamínbasa í sölu- og dreifingarskyni. Hann hafði þó geymt vökvann á heimili félaga síns.
Sandra Vídalin játaði að hafa ræktað kannabisplöntur á heimili sínu og Jónas Árni var fundinn sekur um vörslu á rúmlega 250 grömmum af amfetamíni á heimili sínu til sölu- og dreifingar.
Steingrímur bar Rolex-armbandsúr og var fallist á upptöku þess.
Heimild er til þess að gera upptæka verðmæta muni, sem ætla má að hafi fengist vegna brots á lögum sem varða þunga refsingu, og eru til þess fallin að hafa haft í för með sér verulegan fjárhagslegan ávinning.
Steingrímur bar því við að faðir hans hefði látið sig fá fjármuni fyrir úrinu, en verðmæti úrsins er rúmlega ein milljón íslenskra króna og Steingrímur greiddi fyrir það með reiðufé þann 6. nóvember 2017.
Faðir hans bar vitni og sagðist eigandi úrsins. Hann sagðist þó ekki vita hvort úrið passaði á sig, enda hefði Steingrímur borið úrið frá kaupum og fram að handtöku. Þá var úrið skráð á nafn Steingríms þar til tveimur vikum eftir að Steingrímur var laus úr gæsluvarðhaldi, en þá var skráningunni breytt yfir á nafn föður hans.
Meðal gagna málsins voru útprentuð samskipti milli Steingríms og vinkonu hans á samskiptaforriti, þar sem hann hafði sent mynd af sér með úrið og tilkynnt henni um kaupin.
Jónas Árni þarf að greiða verjanda sínum, Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, tólf og hálfa milljón króna í málsvarnarlaun og Steingrími var gert að greiða sínum verjanda, Magnúsi Jónssyni, þrettán milljónir króna. Þá var Leó Daðasyni, verjanda konunnar, dæmdar ellefu milljónir króna í málsvarnarlaun.