Stöðug jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaganum á síðustu misserum hefur hert á þróun landsbrots í Krýsuvíkurbergi. Alls er bergið um 6,5 kílómetra langt og hæst um 50 metrar. Þungar öldur Atlantshafsins berast þarna að landi og vinna á gljúpu berginu, svo fyllur falla fram og niður í sjó. Hamraveggurinn færist stöðugt innar og nálgast óðum ljósvitann sem þarna stendur. Áður var grasi vaxin hlíð þarna fyrir framan.
„Hér hrynur endalaust,“ segir Óskar Sævarsson, landvörður í Reykjanesfólkvangi, í samtali við Morgunblaðið. Í daglegum ferðum sínum um svæðið segir hann að alltaf beri eitthvað nýtt fyrir augu. Því sé náttúrufar þarna í óstöðvandi framvindu. Af þessum sökum sé ástæða til aðgæslu við Krýsuvíkurberg, en einnig á fjölförnum stöðum svo sem á Sveifluhálsi og undir Festarfjalli sem er skammt austan við Grindavík.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.