„Hvar er heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins eiginlega?“ spurði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar á þingi, þar sem hún gagnrýndi Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra vegna stöðunnar á bráðamóttöku Landspítalans.
Fjórir hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum á bráðamóttökunni vegna langvarandi álags og lélegs aðbúnaðar. Auk þess tóku tíu uppsagnir gildi í mars.
Helga Vala sagði að að væri „ekkert að frétta“ í heilbrigðismálum og stjórnvöld hefðu ekkert gert til að bæta ástandið í heilbrigðiskerfinu.
„Svo að við tökum upp líkingamál sem hæstvirtur heilbrigðisráðherra skilur þá vil ég benda á að það er langt liðið á fyrri hálfleik hjá honum og út úr liðinu streyma lykilleikmenn sem haldið hafa liðinu á floti. Fólkið í stúkunni er farið að hvísla sín á milli að kominn sé tími á þjálfaraskipti, enda þolinmæðin lítil eftir slakt gengi á síðasta kjörtímabili,“ sagði Helga Vala.
Lykilstarfsmaður á bráðamóttökunni í Fossvogi hafi sagt upp í gær vegna langvarandi álags og sagði Helga Vala að engar lausnir væri í sjónmáli.
„Fleiri lykilstarfsmenn hyggja á brottför af því að fólk fer heim af vaktinni með nagandi samviskubit og eftirsjá í boði ríkisstjórnarinnar. Nei, þaðan er ekkert að frétta.“