Ráðgert er að opna útsýnispallinn á Bolafjalli fyrir almenna umferð eftir um fjórar vikur. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, segir að greinilegur áhugi sé á meðal ferðamanna að geta nýtt sér þessa nýjung í ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Það sjáist kannski best á því að undanfarna góðviðrisdaga hafi trúlega yfir 100 manns gengið veginn upp á fjallið og þar hafi erlendir ferðamenn verið í meirihluta.
Verkefnið hófst með hönnunarsamkeppni 2019, en undirbúningur og framkvæmdir við pallinn „á ystu nöf“ í um 700 metra hæð á Bolafjalli hafa staðið tvö síðustu sumur. Í fyrrahaust var formlegri opnun frestað vegna snjóa.
Vegurinn upp á fjallið var nýlega mokaður, en hann er enn mjög blautur og þarf tíma til að þorna áður en bílaumferð verður hleypt á hann. Fyrirhugað er að fara upp með beltagröfu og tengivagn um 20. júní og er reiknað með að lokafrágangur taki um viku. Eftir er að fylla upp að pallinum með grjóti og jarðvegi, ganga frá framkvæmdasvæðinu, bæta göngustíga og setja upp eina öryggisgrind til viðbótar á pallinum.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.