Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir töluvert á sig leggjandi til að koma böndum á verðbólguna.
Fram kom í gær að verðbólgan mælist nú 7,6% og bendir Guðrún á að sama staða sé uppi í flestum ríkjum sem við berum okkur saman við.
„Eins og allir hef ég miklar áhyggjur af þessari þróun. Ég held að við getum öll verið sammála um að verðbólgan sé einn mesti óvinur fólks, heimila og fyrirtækja á Íslandi. Við, sem munum aðra tíma, þekkjum það. Að mínu mati er töluvert á sig leggjandi til að koma böndum á hana,“ segir Guðrún og bendir á að þá hafi vandinn stundum verið heimatilbúinn en nú sé sambærileg verðbólga í Evrópu.
„Fyrir einhverjum árum og áratugum þá var verðbólgan heimatilbúinn vandi en núna getum við sagt að nánast öll ríki heims séu að berjast við mikla verðbólgu. Þar spila nokkrir þættir inn í. Við erum að koma út úr samdrætti vegna heimsfaraldursins og þá var víða mikil peningaprentun í gangi. Þar var peningum dælt út í hagkerfi margra ríkja. Þegar gripið er til slíkra aðgerða þá er því tappað af einhvers staðar. Ofan á þetta bætist stríðið í Úkraínu og miklar launahækkanir hér á landi.
Við rekjum samt sem áður hluta verðbólgunnar til hækkunar húsnæðisverðs. Ekki er hægt að horfa framhjá því. En ég myndi halda að verðbólgan hér væri með því lægsta í Evrópu um þessar mundir, ef við tækjum fasteignamarkaðinn út fyrir sviga. Meðalverðbólga er 7,5% í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum er hún komin yfir 8%. Auk þess er hún 7,4% í Þýskalandi og 7,8% í Bretlandi. Við erum því á svipuðum stað og ríki sem eru efnahagsleg stórveldi.“
Með þetta í huga leggur Guðrún áherslu á að Íslendingar reyni að einblína á þær breytur sem við getum haft áhrif á.
„Þar sem stór hluti verðbólgunnar núna er innfluttur, þá verður sameiginlegt verkefni okkar allra að ná utan um þetta. Ég hef mestar áhyggjur af því að kjarasamningar séu að losna og sé ekki að hægt sé að fara inn í kjaraviðræður í haust án þess að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins móti sameiginlega sýn. Verkefnið fram undan verður fyrst og síðast að varðveita kaupmáttinn og reyna að auka hann ef hægt er. Þar munar mestu ef við náum verðbólgu og vöxtum niður.“
Guðrún óttast að miklar verðhækkanir á innfluttum aðföngum eigi enn eftir að skila sér inn í verðlag á Íslandi.
„Ég get nefnt sem dæmi að ég átti samtal við byggingaverktaka hjá umsvifamiklu fyrirtæki í morgun. Hann nefndi bara úr sínu bókhaldi að steypustyrktarjárn hefur hækkað um 256%, ál um 198%, steypa um 55% og timbur um 50-170%. Þetta hefur bara gerst á þessu ári og versnað eftir að stríð braust út í Evrópu. Það á eftir að byggja húsin sem taka þessa kostnaðarliði á sig.
Við þekkjum líka ýmis önnur dæmi eins og varðandi eldsneyti, hveiti, sykur, olíur og fleira. Þetta er allt að hækka og það verður því mjög snúið að halda innlendu verðlagi niðri,“ segir Guðrún en hún heldur í bjartsýnina.
„Ég er nú bjartsýn að eðlisfari. Við verðum að öðlast sameiginlegan skilning á því að við erum í sérstökum aðstæðum. Það er verið að keyra upp hagkerfið og það var nánast slökkt á sumum greinum atvinnulífsins um tveggja ára skeið. Nú er atvinnuleysi komið á svipaðan stað eða orðið minna en var fyrir heimsfaraldurinn. Við finnum að hjól atvinnulífsins snúast og ferðaþjónustan hefur tekið hratt við sér. Við getum glaðst yfir því hér á Íslandi. Nú er helsta vandamálið í atvinnulífinu að það vantar fólk til starfa. Það virðist þó ekki vera séríslenskt vandamál um þessar mundir. Það virðist vanta fólk í vinnu mjög víða á Vesturlöndum. Þegar hagkerfin eru keyrð í gang á ný eftir stöðnun, þá fylgja vaxtaverkir. Ég held að verðbólgan verði þung út þetta ár en eftir það munum við sjá batamerki. Ég tala nú ekki um ef stríðið dregst ekki á langinn,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir í samtali við mbl.is.