Ástandið hið versta í sögu bráðadeildar

Hjalti Már Björnsson bráðalæknir og starfandi yfirlæknar á bráðadeild Landspítala.
Hjalti Már Björnsson bráðalæknir og starfandi yfirlæknar á bráðadeild Landspítala. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákall vegna neyðarástands á bráðamóttökunni er farið að hljóma svolítið kjánalega, þegar ekkert gerist, að sögn Hjalta Más Björnssonar, starfandi yfirlæknis á bráðadeild Landspítala. 

„Ástandið síðustu vikur hefur verið verra en nokkurn tíma í sögu bráðamóttökunnar, fleiri bíða innlagnar á sama tíma og það kvarnast upp úr hópi starfsfólks.“

Hann segir starfsfólk þreytt á að ekki sé hlustað á viðvaranir um stöðuna. Alger skortur sé á legudeildarrýmum fyrir fólk sem þurfi að komast að, tugir sjúklinga þurfi að bíða á bráðamóttökunni í óhæfilegan tíma. 

Álag ofan í langvarandi niðurskurð

Uppsafnað álag vegna heimsfaraldursins spilar inn í, en Hjalti bendir á að það álag hafi bæst við í kjölfar langvarandi niðurskurðar. Landspítalinn sé búinn að vera yfirfullur í hálfan eða heilan áratug. 

„Við höfum verið að fækka sjúkrarúmum á meðan fólki fjölgar.“

Hjalti vill sjá að ráðist verði í róttækar aðgerðir til þess að snúa við ástandinu, annars muni það halda áfram að versna. Fyrst og fremst þurfi að bæta starfskjör starfsfólks, þá þurfi einnig að bæta starfsaðstæður.

Sinna reynslunni 

Uppbyggingin við Landspítalann verður búbót að vissu leyti, en Hjalti bendir á að liðin séu fjörutíu ár frá því að sjúkrahúsrými voru síðast byggð utan um fullorðna á höfuðborgarsvæðinu. 

Manneklan er þó stærri vandi, að hans mati. „Það þarf að reka heilbrigðiskerfið þannig að laun séu ásættanleg og vinnuálagið viðráðanlegt. Fjölgun læknanema í læknadeild og útskrifaðra hjúkrunarfræðinga, mun hjálpa en það er ekki síður mikilvægt að við sinnum því fólki sem við eigum og hefur reynslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka