Boð um 450 milljónir dregið til baka

Landspítalinn mun ekki fá 450 milljóna króna fjárveitingu þar sem …
Landspítalinn mun ekki fá 450 milljóna króna fjárveitingu þar sem stjórnvöld ætla sér ekki að fjármagna verkefnið. mbl.is/Jón Pétur

Krabbameinsfélag Íslands mun ekki veita Landspítalanum 450 milljóna króna fjárframlag sem ætlað var nýrri dagdeild blóð- og krabbameinslækninga. Að sögn Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins, voru stjórnvöld ekki viljug til þess að koma deildinni á fót.

Halla segir í samtali við mbl.is að núverandi aðstaða sé óviðunandi og að brýnt sé að bregðast við sem fyrst. Lausn sé til staðar sem þurfi að fjármagna.

Rúv greindi fyrst frá.

Halla bendir á að einn af hverjum þremur Íslendingum geti átt von á því að greinast með krabbamein en áætlað er að krabbameinstilvikum muni fjölga um 30% á næstu 15 árum á Íslandi þar sem meðalaldur þjóðarinnar fer hækkandi. Fólk með krabbamein lifir lengur en áður, sem að vísu er gleðiefni, en það þýðir jafnframt að fleiri munu þurfa meðferð lengur og byrðin á deildina mun aukast. Þess þarf að taka tillit til.

Eftir að ljóst varð að stjórnvöld ætluðu sér ekki að taka þátt í verkefninu og fjármagna nýja byggingu með Krabbameinsfélaginu var ákvörðun tekin á aðalfundi félagsins þann 21. maí síðastliðinn að fella úr gildi samþykkt um fjárveitinguna. Munu fjármunirnir fara í önnur brýn verkefni.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.
Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Varla klósettaðstaða

Á dagdeildinni sem um ræðir fær stærstur hluti þeirra sem fá krabbameinslyfjameðferð á Íslandi sína meðferð. Halla segir nauðsynlegt að aðstaðan fyrir krabbameinssjúklinga sé mannsæmandi og með þeim hætti að hægt sé að veita bestu mögulegu þjónustu. Það sé alls ekki raunin núna.

„Þessi deild er algjörlega sprungin plásslega séð og aðstaðan er óboðleg fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk,“ segir Halla í samtali við mbl.is.

„Það er eitt klósett sem fólk kemst inn á með lyfjastatífin sem það þarf að vera á. Það er ekki aðstaða til að vera með mat, það er ekki pláss fyrir samlokusjálfsala einu sinni. Ef aðstandendur eru þarna með þá eru þeir nánast fyrir. Hjúkrunarfólkið er nánast hvort með annað í kjöltunni því það er svo lítið pláss. Þetta er glatað ástand og við vorum að vona að þetta framlag frá félaginu gæti flýtt fyrir því að koma þessari byggingu í gegn.“

Mikil ánægja með verkefnið

Fyrir ári síðan var samþykkt á aðalfundi Krabbameinsfélagsins að félagið væri tilbúið til þess að veita allt að 450 milljóna króna framlag til Landspítalans sem átti að flýta fyrir byggingu nýrrar dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga. Fyrir þann tíma hafði félagið verið í töluverðum viðræðum við Landspítalann vegna málsins.

Verkefnið var háð þeim skilyrðum að stjórnvöld myndu koma til móts við Krabbameinsfélagið og hrinda í framkvæmd hugmynd að lausn sem að Landspítalinn hafði teiknað upp og áætlað er að kosti um 1,3 milljarð. 

„Þessi lausn spítalans er tiltölulega einföld. Hún felst í því að klára gamla byggingu sem er til staðar á spítalalóðinni og spítalinn áætlaði að það væri hægt að gera á þremur árum. Þannig að það væri hægt að taka deildina í notkun 2024.“

Halla kveðst hafa fundið fyrir mikilli ánægju af hálfu heilbrigðisyfirvalda með framtakið en það náði þó ekki lengra en það. Aldrei bárust vilyrði fyrir því að fjármagna verkefnið.

„Þau ætla ekki að setja þessa byggingu í forgang og það er ekkert að frétta af framtíðarhúsnæðinu. Það er ekkert sem bendir til þess að deildin verði komin í nýtt húsnæði árið 2024 og það liggur ekkert fyrir hvað á að gerast með hana. Þess vegna er ákvörðunin dregin til baka.“

Ekki hægt að bíða

Þau svör sem Krabbameinsfélagið hefur fengið frá stjórnvöldum eru að verið sé að vinna greiningarvinnu á því hvert framtíðarhlutverk Landspítalans eigi að vera. Ekki sé því tímabært að taka ákvarðanir um húsnæði en það verði gert í framhaldi af þeirri vinnu. 

„Þetta er rosalega mikil vinna og auðvitað þarf að vinna þessa vinnu. Það er alveg á hreinu. En eins og við sjáum það þá getur þessi deild ekki beðið á meðan sú vinna er í gangi því ástandið þarna er mjög, mjög brýnt.

Við því þarf að bregðast og þarna er komin hugmynd að lausn sem er tiltölulega einföld og þess vegna var okkur mikið í mun að hrinda henni í framkvæmd.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert