Borgin sýknuð af 120 milljóna kröfu

Vogabyggð við Snarfarahöfn.
Vogabyggð við Snarfarahöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Hæstiréttur sýknaði í dag Reykjavíkurborg af kröfu Sérverks ehf. sem fór fram á ríflega 120 milljóna krónu endurgreiðslu, auk vaxta, sem fyrirtækið hafði greitt vegna innviðagjalda árið 2018 vegna uppbyggingu í Vogabyggð í Reykjavík.

Sérverk taldi álagningu innviðagjaldsins ólögmæta og að tekjuöflun sveitarfélaga yrði að byggjast á heimildum í lögum, óháð því hvort um væri að ræða skattheimtu eða gjald fyrir þjónustu.

Hæstiréttur taldi að með 78. gr. stjórnarskrárinnar hefðu sveitarfélög sjálfstætt vald, innan ramma laga, til að taka ákvarðanir um nýtingu og ráðstöfun tekna og yrði að játa þeim svigrúm til að ákveða forgangsröðun innan þess ramma, þar á meðal hvort tekjur af einkaréttarlegum samningum rynnu að einhverju marki til lögbundinna verkefna.

Borgarstjórinn segir niðurstöðuna mikið fagnaðarefni. Samtök iðnaðarins hafi undanfarin misseri og ár haft uppi stór orð um þessa samninga og staðið á bak við málssóknir á öllum dómsstigum „og hafði borgin alls staðar sigur: í héraðsdómi, Landsrétti og nú Hæstarétti.“

Álagningin stæðist ekki

Sérverk ehf. er eigandi lóðarinnar Kugguvogs 9, áður Kugguvogur 5, í Reykjavík sem er í Vogabyggð. Verktakafyrirtækið keypti lóðina af Vogabyggð ehf. árið 2017. 

Í kaup­samn­ingn­um seg­ir meðal ann­ars að kaup­anda, Sér­verki, sé kunn­ugt um sam­komu­lag milli Voga­byggðar, Hamla og Reykja­vík­ur frá 2016 um skipu­lag, upp­bygg­ingu og þróun á svæði í Voga­byggð Reykja­vík. Með kaup­samn­ingn­um yf­ir­tók Sér­verk öll rétt­indi og skyld­ur sam­kvæmt veðskulda­bréfi sem Voga­byggð ehf. gaf út árið 2017 áður en kaup­in áttu sér stað. Uppgreiðsluverð þess í október 2018 var rúmlega 120 milljónir króna.

Í september árið 2018 skrifaði fyrirtækið til Reykjavíkurborgar og sagði að álagning innviðagjaldsins stæðist ekki því ekki væru heimildir í lögum til innheimtu þess. Rúmaðist innviðagjaldið ekki innan tekjuöflunarheimilda sem borgin hefði á einkaréttarlegum grunni. Sérverk krafðist því að borgin myndi endurgreiða innviðagjaldið en hún varð ekki við þeirri beiðni.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir m.a. að sveitarfélögum sé í lögum heimiluð ýmiss konar gjaldtaka í formi skatta og þjónustugjalda sem tengist skipulegi og mannvirkjagerð, svo sem innheimta skipulagsgjalds, byggingarleyfisgjalds og gatnagerðargjalds.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tjáði sig um málið á Facebook …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tjáði sig um málið á Facebook í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Niðurstaðan fagnaðarefni

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir í færslu á Facebook að niðurstaða Hæstaréttar sé mikið fagnaðarefni. Mikið hafi verið undir í þessum dómsmálum en að umræddir samningar hafi verið lykilverkfæri m.a. við að endurskipuleggja gömul athafnasvæði í Vogabyggð og Ártúnshöfða, og þéttingarreiti mun víðar. Vill hann hrósa öllum sem hafa komið að málum þessum af hálfu borgarinnar.

Því viðhorfi að verktakar ættu að geta hirt allan gróðan af umbreytingu borgarinnar en skilið kostnaðinn við endurnýjun hverfanna eftir hjá samfélaginu hefur algerlega verið hafnað. Um leið liggur fyrir að sveitarfélög geta með samningum stuðlað að fjölgun félagslegra íbúða og félagslegri blöndun að fordæmi Reykjavíkur. Það er sannarlega í þágu betra samfélags og almannahagsmuna,“ segir í færslunni. 

Fordæmisgildi

Reykjavíkurborg hafði áður verið sýknuð af öllum kröfum í héraði og fyrir Landsrétti en fallist var á beiðni um áfrýjunarleyfi sökum þess að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um heimildir sveitarfélaga til tekjuöflunar á einkaréttarlegum grundvelli.

Í dómi Hæstaréttar segir að hinn áfrýjaði dómur skuli vera óraskaður og að Sérverk greiði Reykjavíkurborg 1,2 milljónir króna í málskostnað fyrir Hæstarétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert