Margir Íslendingar reyna nú að ákveða hvernig best er að nýta sumarfríið innanlands enda ljóst að úr miklu er að velja þegar hátíðir og dagskrár eru annars vegar. Stefnir allt í að í sumar verði ýmsar tónlistar- og bæjarhátíðir haldnar sem fólk hefur ekki haft færi á að njóta síðustu tvö sumur vegna kórónuveirufaraldursins.
Júnímánuður byrjar vel en þar kemur fyrst Color Run í Reykjavík 4. júní. Þar gefst gestum tækifæri á að hlaupa í gegnum fimm kílómetra litapúðurssprengju. Þeir sem vilja ekki hlaupa geta skellt sér á Bjórhátíðina á Hólum sömu helgi. Þar verða kynntar nýjar vörur frá bjórframleiðendum.
Þriðju helgina í júní er komið að þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní. Þá verða hátíðahöld í flestöllum bæjum landsins. Einnig er hægt að bruna norður á Bíladaga á Akureyri en þar er keppt í kappakstri og alls konar bílar verða til sýnis. Ef fólk vill vera nær höfuðborgarsvæðinu þá er Víkingahátíð í Hafnarfirði þar sem eru bardagasýningar, markaður og víkingaskóli barna. Síðustu helgina í júní geta landsmenn gætt sér á ljúffengum humri á Humarhátíðinni á Höfn í Hornafirði.
Júlímánuður gengur í garð með miklu fjöri en fyrstu helgina er Írskum dögum fagnað á Akranesi. Meðan á þeim stendur fer fram á Akranesi á kvöldin tónlistarhátíðin Lopapeysan þar sem verður brekkusöngur með tilheyrandi látum. Sömu helgi er Goslokahátíðin í Vestmannaeyjum þar sem lokum eldgossins á Heimaey árið 1973 er fagnað.
Helgina eftir það er hægt að velja á milli tónlistarhátíðarinnar Eistnaflugs í Neskaupstað og Kótilettunnar á Selfossi. Á Kótilettunni kynna bændur framleiðslu sína og síðar um kvöldið stíga margir af þekktustu tónlistarmönnum landsins á svið.
Þriðju helgina í júlí skemmta listamenn sér á Lunga á Seyðisfirði en þar eru listasmiðjur og sýningar. Hátíðinni er lokað með tónleikum um kvöldið. Ef höfuðborgarbúar vilja ekki leggja leið sína svo langt þá er á sama tíma bæjarhátíðin Blóm í bæ í Hveragerði.
Helgina fyrir verslunarmannahelgina er einnig úr nægu að velja en þá eru Mærudagar á Húsavík með tónleikum og ýmsum viðburðum fyrir alla fjölskylduna og Bræðslan á Borgarfirði eystri þar sem er ball laugardagskvöldið.
Um verslunarmannahelgina, frá 29. júlí til 1. ágúst, er úr nægu að velja. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum verður haldin en henni var aflýst síðustu tvö ár. Fyrir þá sem eru minna fyrir útilegur er Innipúkinn í Reykjavík en þar mun margt tónlistarfólk stíga á pall. Síðan má ekki gleyma bæjarhátíðinni á Flúðum yfir verslunarmannahelgina þar sem verður brenna, brekkusöngur og fleira. Fyrir þá sem vilja frekar nýta helgina í íþróttir er mýrarbolti í Bolungarvík eða bæjarhátíðin Ein með öllu á Akureyri þar sem m.a. verður keppt í alls kyns jaðaríþróttum.
Fjörið í sumar hættir ekki með verslunarmannahelginni en eftir hana er til dæmis Gleðigangan í Reykjavík, hápunktur Hinsegin daga sem eru haldnir frá 2. til 7. ágúst. Að lokum má segja að sumrinu ljúki með Menningarnótt í Reykjavík 20. ágúst með tónleikum og flugeldasýningu.