Lagaumgjörðin þykir afar óljós

mbl.is/Þorgeir Baldursson

Lagaumgjörðin um blóðtöku úr fylfullum hryssum þykir afar óljós samkvæmt skýrslu sem samin var starfshópi matvælaráðuneytisins.

Fyrir vikið hefur verið brugðið á það ráð að setja á reglugerð um starfssemina sem gildir næstu þrjú árin. Frá þessu er greint í tilkynningu frá ráðuneytinu. „Í reglugerðinni verður skýrt kveðið á um hvaða skilyrði starfsemin þarf að uppfylla og jafnframt að starfsemin sé leyfisskyld,“ segir meðal annars í tilkynningunni. 

Starfshópnum var gert að skoða starfsemi, regluverk, eftirlit og löggjöf í kringum blóðtöku úr fylfullum hryssum. Í tilkynningunni segir að í skýrslunni sé rýnt í umfang starfseminnar, eftirlit, dýravelferð, löggjöf, sjónarmið hagaðila og tillögur settar um framhaldið.

Líkt og fram kemur í skýrslunni munu skilyrði reglugerðarinnar byggja á sömu skilyrðum og Matvælastofnun setur nú. Hópurinn leggur einnig til að þau verði hert m.a. með tilliti til þeirra sjónarmiða sem fram komu hjá hagaðilum og öðrum sem starfshópurinn ræddi við. Setja þarf ítarlegri ákvæði um aðbúnað og aðstöðu, eftirlit með ástandi hrossa varðandi heilbrigði, hófhirðu og skapgerðarmat, vinnuaðferðir við blóðtökuna sjálfa og um innra og ytra eftirlit með henni.

Þá telur hópurinn nauðsynlegt að óháður aðili svo sem Tilraunastöðin á Keldum sannreyni mælingar á blóðbúskap hryssnanna að minnsta kosti tímabundið. Nauðsynlegt er einnig að skilyrði verði sett um aldursbil hryssna í blóðtöku, hámarksfjölda í stóðum og hámarksfjölda sem dýralæknir má hafa umsjón með í blóðtöku. Þá er eðlilegt að aðstoðarmaður undir stjórn dýralæknis sé til staðar við hvern blóðtökubás til að geta brugðist skjótt við ef vandamál koma upp.

Hópurinn leggur einnig til að ekki verði leyfilegt að notast við framleiðslukerfi sem hvetur til og byggir á magnframleiðslu enda geti það stefnt velferð dýranna í hættu,“ segir meðal annars í tilkynningunni frá ráðuneytinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert