Sárt að horfa á starfsfólk hrökklast burt

Runólfur Pálsson, forstjóri Landpítala.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landpítala. mbl.is/Arnþór Birkisson

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala segist hafa óttast stöðuna, sem nú er uppi á spítalanum, í langan tíma. „Þetta er vandi sem á sér langa sögu,“ segir Runólfur. 

Vandinn á bráðamóttökunni er afsprengi ófullnægjandi úrræða innan heilbrigðiskerfisins á höfuðborgarsvæðinu sem hafa verið viðloðandi frá árinu 2014, að sögn Runólfs sem segir að skyndilausnir hafi verið einkennandi en umfang verkefna aukist jafnt og þétt með fyrirsjáanlegri öldrun þjóðarinnar. 

Runólfur segir að aukið álag á bráðamóttöku sé ekki endilega vegna þess að tilfellum sé að fjölga, heldur vegna þess að innlögnum sé að fjölga í kjölfar komu á bráðamóttöku. Meðalaldur þeirra sem leiti á bráðamóttökuna sé að hækka og fleiri glími við heilsubrest. Dvöl þeirra á spítalanum lengist, því fólk missir færni og kallar það á endurhæfingu. 

„Það væri hægt að reyna að þróa úrræði utan spítalans til að viðhalda færni fólks, það þarf víðtækt samráð allra hlutaðeigandi til að búa til úrræði sem styðja við fólk án þess að það þurfi að vera of lengi á spítala. Allt kallar þetta á fagþekkingu þannig að við þurfum þetta starfsfólk.“

Hægt væri að þróa endurhæfignarúrræði utan Landspítalans.
Hægt væri að þróa endurhæfignarúrræði utan Landspítalans. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Síðasti vonarneistinn

Síðustu mánuði hafa stjórnendur Landspítala verið í samvinnu við yfirvöld til þess að finna lausnir við flæðisvandanum af bráðamóttökunni og rýmka fyrir útskriftum. 

„Heilbrigðisyfirvöld hafa boðað ýmis úrræði, endurhæfingarúrræði eða hjúkrunarrými, svo hefur það tafist þannig að þetta verður ekki að veruleika á þeim tíma sem við var búið og það má segja að það taki síðasta vonarneistann frá fólkinu sem hefur staðið vaktina.“

Nú sé sumarið að koma, ferðamenn væntanlegir, og því eðlilegt að starfsfólk spyrji sig hvar þetta endi: Hvort ekki sé hægt að reiða sig á nokkurn hlut.

„Ég held að það séu alveg jafn mikil vonbrigði í heilbrigðisráðuneytinu og eru hjá okkur núna, en það er bara svo sárt að horfa upp á starfsfólkið, sem ann sínu starfi, hrökklast í burt.“

„Ég held að það séu alveg jafn mikil vonbrigði í …
„Ég held að það séu alveg jafn mikil vonbrigði í heilbrigðisráðuneytinu og eru hjá okkur núna.“ Unnur Karen

Þurfum að borga hærri laun

Innan spítalans er að eiga sér stað umfangsmikil vinna við að leita leiða til þess að mæta vandanum. 

„Við erum að reyna að beina fólki í önnur þjónustuúrræði frá bráðamóttökunni, byggja upp bráðadagdeild lyflækninga og efla fjarþjónustu en allt þetta dugir skammt þegar vandinn er svona yfirgripsmikill.“

Runólfur segir mikilvægast að halda starfsfólkinu og fjölga í hópnum. „Okkur hefur verið þröngur stakkur sniðinn hvað varðar laun fólks en við þurfum að reyna að fjölga og fá þá sem hafa þessa menntun til starfa. Þá þurfum við bara að borga hærri laun.“

Það sé betra að hafa fleira fólk með hófleg verkefni, sem fái greidd betri laun. 

Betra að hafa fleira fólk með hófleg verkefni, sem fái …
Betra að hafa fleira fólk með hófleg verkefni, sem fái greidd betri laun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heldur ekki í við þá sem fara á eftirlaun

„Í framtíðinni snýst þetta um markvisst samráð og markvissa nýtingu, við verðum að forgangsraða verkefnum og nýta mannaflan betur.“

Nemendum í hjúkrunarfræði hefur fjölgað, sem og nemendum í læknisfræði. „Þessi fjölgun heldur varla í við þá sem hætta vegna aldurs.“

Runólfur bendir á að margir sem hætti vegna aldurs, hafi enn mikla getu og vilja til að halda áfram. „Við þurfum að stuðla að því að þetta fólk geti starfað áfram og fái kjör í samræmi við það. Við höfum verið að bjóða fólki tímavinnusamninga, sem eru lakari starfskjör en fólk hafði áður, og úr þessu verðum við að bæta.“

Verðum að horfa út fyrir rammann

Þá telur hann að hægt væri að skipta verkum betur milli kjarnastarfmanna og annarra starfskrafta á spítalanum. Nefnir hann sem dæmi að klínískir lyfjafræðingar, lyfjatæknar og félagsráðgjafar gætu komið sterkar inn í meðferðarteymin. 

„Bretar hafa orðið fyrir barðinu á þessari öldrunarbylgjum síðustu tíu ár, þá fjölgaði sjúkrahúsinnlögnum um 65 prósent þrátt fyrir að heimsóknir stæðu í stað. Þeir hafa þjálfað ófaglært fólk í heilbrigðisþjónustunni. Það glæðir kannski áhuga hjá því fólki að fara í nám.“

Rétt sé að hugsa út fyrir rammann í þessum málum. 

„Við getum ekki haldið okkar venjulegu nálgun og horft á verkefnin hrannast upp án þess að hafa mannaflann til að sinna því. Þetta er eitthvað sem við hefðum átt að gera fyrir tíu árum.“

Ekki sýnt nauðsynlega fyrirhyggju

Heilbrigðisstéttin hefur verið að benda á þessi atriði um langt skeið að sögn Runólfs. „Við höfum ekki sem samfélag sýnt þessa fyrirhyggju sem til þarf.“

Aftur á móti hefði heilbrigðisstéttin sjálfsagt getað gert betur í að koma þessum sjónarmiðum á framfæri og verið opin fyrir frekara samtali við aðrar stofnanir. 

„Núna blasir vandinn við og mín upplifun er sú að það sé sannarlega verið að hlusta á okkur.“

Fyrr en seinna hljóti að koma viðbrögð sem hjálpa en þá skiptir máli, að mati Runólfs, að halda áfram af krafti.

Mannekla hverfur ekki yfir nótt, segir Runólfur sem bætir því við að vinna þurfi markvisst að kerfislegum úrræðum til þess að takast á við verkefni framtíðarinnar án þess að það skapist aftur „ófremdarástand.“

Aðstöðunni ábótavant

Nýr meðferðarkjarni Landspítala er á dagskrá árið 2026, þó við sé búið að tafir verði á framkvæmdum, að sögn Runólfs. 

„Hann mun stórefla bráðaþjónustuna og skapa frábæra aðstöðu en við þurfum samt ennþá fimm til sex hundruð legurými til viðbótar.“

Þá bendir Runólfur á að göngu- og dagdeildarstarfsemi spítalans sé stærst í dag og veruleg óhagkvæmni felist í því að þær deildir séu eins dreifðar og raun ber vitni, því væri skynsamlegra að koma þeim saman í eina byggingu.

Húsnæði geðþjónustunnar er einnig óásættanlegt, að mati Runólfs, en úrbætur á því eru ekki komnar á dagskrá að svo stöddu. 

„Við fáumst við verkefni sem aðrir geta ekki sinnt. Við …
„Við fáumst við verkefni sem aðrir geta ekki sinnt. Við erum bráðasjúkrahúsið þar sem flestir landsmenn búa. “ Eggert Jóhannesson

Vaktir voru bara hluti af starfinu

Aðspurður hvort Landspítalinn sé að missa fleira fólk frá sér yfir til einkaaðila, segir Runólfur að svo sé. 

„Síðustu tvö ár hafa verið erfið fyrir heilbrigðisstarfsfólk, við búum samt við mikla hagsæld og mikil tækifæri hér á landi og sumum hentar illa að vinna á kvöldin, um helgar og frídögum. Hér áður var það bara hluti af starfinu að vera með slíka vinnutíma.“

Framboð af dagvinnustörfum hefur aukist með tilkomu fleiri einkarekinna eininga.

Runólfur segir að þar séu unnin mikilvæg störf. „En við verðum að búa til aukið samstarf milli Landspítalans og svona sjálfstæðra eininga.“

Það myndi ekki geta gengið upp ef Landspítali endar með of fáa starfsmenn samanborið við aðra.

„Við fáumst við verkefni sem aðrir geta ekki sinnt. Við erum bráðasjúkrahúsið þar sem flestir landsmenn búa. “

Margar stórar og smáar framkvæmdir hafa litið dagsins ljós síðustu …
Margar stórar og smáar framkvæmdir hafa litið dagsins ljós síðustu ár. Sú stærsta þeirra er þó án efa nýr Landspítali við Hringbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staðan verður betri í haust

Eftir tvö ár í heimsfaraldri þar sem álagið á heilbrigðisstarfsfólki var gríðarlegt og kalla þurfti fólk inn úr orlofum sínum síðasta sumar, var kominn tími til þess að senda starfsfólk í frí. 

Runólfur bendir á að starfsfólk hafi staðið sig gríðarlega vel í gegnum erfiða tíma. Fáar sögur fari af því að fólk fái ekki viðunandi þjónustu þrátt fyrir að ljóst sé að vinnuaðstæður séu ekki viðunandi. 

Runólfur á von á því að staðan verði betri í haust þegar sumarleyfistíminn er liðinn, en hann verður sérstaklega erfiður í ljósi aukinna verkefna og vaxandi manneklu.

„Þetta snýst mikið um að þrauka í gegnum sumarið. Það er óvissa í haust en það er samt útlit fyrir betri stöðu ef við höldum starfsfólkinu og það er okkar forgangsmál núna að tryggja það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert