Fulltrúi sýslumanns hefur nú vísað móður 10 ára drengsins á Barnaspítala Hringsins út af deildinni sem hann liggur á og er faðirinn kominn inn á stofuna, að hennar sögn. Ágreiningur hefur verið milli foreldranna vegna forsjármáls en í dag mættu fulltrúar lögreglunnar og Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á spítalann til að sækja drenginn og færa hann til föður síns.
Drengurinn er langveikur og var staddur á spítalanum vegna lyfjagjafar. Fyrr í dag sagðist móðirin ekki hafa átt von á því að lögreglan myndi mæta á spítalann og kom henni þetta verulega á óvart. Hún hafði verið með barninu inni á stofunni í dag.
Greint var frá því fyrr í dag að mikill viðbúnaður væri á Barnaspítala Hringsins vegna forsjármáls yfir 10 ára dreng og voru lögregluþjónar m.a. á svæðinu. Nýverið var úrskurðað að lögheimili barnsins skyldi vera hjá föður þess en drengurinn hefur hingað til verið hjá móður sinni.
Móðirin segir að faðir drengsins hafi fengið að fara inn til hans þegar henni var vísað burt en hún veit ekki hver staðan á barninu er núna eða hvort það er enn á spítalanum.