Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segist hafa vakið athygli á því í ríkisstjórn að ekki væri gert ráð fyrir útgjöldum sem myndi reyna á ef frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningarráðherra um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar yrði samþykkt.
Þetta kom fram í svari Bjarna við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, á Alþingi. Í bréfi fjármálráðuneytisins gagnrýnir það frumvarp Lilju og segir það ófjármagnað.
Frumvarpið var afgreitt úr ríkisstjórn um miðjan síðasta mánuð en það felur í sér að hlutfall af kostnað við kvikmyndagerð hér á landi sem ríkið endurgreiðir hækkar úr 25% í 35%, séu verkefnin stór.
„Í raun og veru snýst þessi umræða eingöngu um þetta: Er á útgjaldaliðnum, sem er vistaður í menningar- og viðskiptaráðuneytinu, nægilegt svigrúm til að fullnægja þeirri þörf sem mun skapast verði frumvarpið samþykkt sem lög? Það er eina spurningin sem skiptir hér máli og fjármálaráðuneytið er bara að vekja athygli á því, er ekki með neinar efnislegar athugasemdir við það mál, að útstreymi til að endurgreiða kvikmyndaframleiðendum mun stöðvast á því að ekki verði fjárheimildir á fjárlagaliðnum,“ segir Bjarni.
Hann segir að einhverjum kunni að þykja þetta óeðlilegt en auðvitað geti komið upp ólík sjónarmið um hvort fagráðuneytið eða fjármálaráðuneytið hafi rétt fyrir sér. „Ég er reyndar í engum vafa um að fjárlagaliðurinn er ófullnægjandi,“ segir Bjarni.