Ósannað, fyrnt og fallið niður sökum tómlætis

Við aðalmeðferð málsins í síðasta mánuði. Jón Þór Ólason, lögmaður …
Við aðalmeðferð málsins í síðasta mánuði. Jón Þór Ólason, lögmaður Lyfjablóms er fremstur á myndinni, en aftast eru þeir Ragnar H. Hall, lögmaður Sólveigar og Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Þórðar. mbl.is/Árni Sæberg

Í dómi sem kveðinn var upp í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Lyfjablóms ehf. gegn Þórði Má Jóhannessyni og Sólveigu Pétursdóttur var talið ósannað að Lyfjablóm ætti skaðabótakröfur á hendur þeim. Jafnframt sagði í dóminum að ef slíkum kröfum hefði verið til að dreifa hefðu þær fyrnst í aðalatriðum í árslok 2008 og 2009 sökum tveggja ára fyrningarfrests laga um einkahlutafélög, auk þess sem allur mögulegur réttur Lyfjablóms væri fyrir löngu fallinn vegna stórfellds tómlætis.

Fjölskylduharmleikur og flétta

Í málinu fór Lyfjablóm, sem áður hét Björn Hallgrímsson ehf., fram á að fjárfestirinn Þórður og Sólveig, fyrrverandi dómsmálaráðherra og ekkja fjárfestisins Kristins Björnssonar, greiddu félaginu bætur upp á um 2,3 milljarða vegna tveggja mála í tengslum við annars vegar stofnun fjárfestingafélagsins Gnúps hf. árið 2006 og hins vegar við hlutafjáraukningu í sama félagi árið 2007.

Lögmaður félagsins hafði lýst málinu við aðalmeðferð þess sem þaulskipulagðri fléttu og sem fjölskylduharmleik og sagði blekkingar hafa átt sér stað þar sem systur Kristins, sem voru auk hans erfingjar að eignamiklu fjölskyldufjárfestingafélagi, hafi ekki fengið viðhlítandi upplýsingar í tengslum við aðkomu Þórðar að Gnúpi á sínum tíma. Einnig hafi þau ekki verið upplýst um slæma stöðu félagsins í nóvember 2007 þegar hlutafé félagsins var aukið, en sjö vikum síðar var félagið fallið og í raun tekið yfir af Glitni. 

Eigandi Lyfjablóms er Björn Scheving Thorsteinsson og er sonur einnar systra Kristins, en þau systkinin áttu eignarhaldsfélagið Björn Hallgrímsson ehf. Glitnir eignaðist félagið eftir fall Gnúps, en Björn keypti það árið 2016 af skilanefnd bankans.

Björn Scheving Thorsteinsson, núverandi eigandi Lyfjablóms. Hann er sonur Áslaugar …
Björn Scheving Thorsteinsson, núverandi eigandi Lyfjablóms. Hann er sonur Áslaugar Björnsdóttur, einnar systur Kristins heitins. mbl.is/Árni Sæberg

Tvær aðskildar skaðabótakröfur

Lyfjablóm hafði uppi tvær aðskildar skaðabótakröfu á hendur Þórðar og Sólveigar sem byggðar voru annars vegar á kaupum á 50% hlutafjár í einkahlutafélaginu Þúfubjargi sem síðar varð að fjárfestingafélaginu Gnúpi árið 2006 og hins vegar vegna kaupa á eigin hlutafé af Gnúpi og til hækkunar hlutafjár félagsins.

Um fyrri skaðabótakröfu Lyfjablóms segir í dómi héraðsdóms að ákvörðun um kaup á 50% hlutafjár í einkahlutafélaginu Þúfubjargi hafi verið tekinn á fundi að öllum hluthöfum viðstöddum. Þar sem engin gögn gætu sýnt fram á skaðabótakröfu Lyfjablóms og þar sem ekki lægi annað fyrir en að ákvörðunin hafi verið gerð af fúsum og frjálsum vilja allra hluthafa dótturdótturfélaga Lyfjablóms voru skilyrði laga til að fella skaðabótaskyldu á Þórð og Sólveigu ekki fullnægt. 

Síðarnefnd skaðabótakrafa Lyfjablóms var m.a. byggð á að rangar upplýsingar í ársreikningi og árshlutareikningi Gnúps hafi leitt til að röng ákvörðun hafi verið tekin um að taka þátt í hækkun hlutafjár Gnúps árið 2007. Einnig hélt Lyfjablóm því fram að upplýsingum hafi verið leynt á upplýsingafundi sem hefði leitt til þess að röng ákvörðun hafi verið varðandi hlutafjárhækkunina. Dómstóllinn féllst ekki á kröfu Lyfjablóms m.a. vegna þess félagið gat ekki stutt staðhæfingar sínar fullnægjandi sönnunargögnum.

Samning við Glitni ætti að virða

Þá tók dómstóllinn til skoðunar samning systkinina við Glitni banka hf. sem var gerður þegar systkinin seldu hlutafé sitt til bankans árið 2008 en í honum var sérstaklega um það samið að engir eftirmálar yrðu gagnvart þeim, hvorki af hálfu bankans né annarra sem kynnu að eignast hlutafé félagsins síðar.

Dómstóllinn leit svo á að í ljósi annarra ákvæða samningsins sem og þeirra kringumstæðna sem voru uppi þegar salan fór fram að markmið samningsins hafi einmitt verið að koma í veg fyrir eftirmála í kjölfar sölu hlutafjárins. Málshöfðun Lyfjablóms væri í beinni andstöðu við efni samningsins og að þar sem ekki hefðu verið færð málefnaleg rök hvers vegna Lyfjablómi, sem var grandsamt um ákvæði samningsins, ætti að vera tækt að hunsa samninginn var talið að Lyfjablóm væri skuldbundið að halda í heiðri samning sem hluthafar Lyfjablóms gerðu á sínum tíma.

Landsréttardómari, fagfjárfestir og endurskoðendur meðal vitna

Niðurstaða dómsins var því sú að Þórður og Sólveig voru sýknuð í málinu í ljósi þess að ósannað var að Lyfjablóm ætti skaðabótakröfur á hendur þeim en jafnframt að ef slíkum kröfum hefði verið til að dreifa hefðu þær fyrnst í aðalatriðum í árslok 2008 og 2009 auk þess sem allur mögulegur réttur Lyfjablóms væri fyrir löngu fallinn niður vegna stórfellds tómlætis.

Fjöldi þekktra nafna úr íslensku viðskiptalífi og úr réttarfarskerfinu mættu og gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Meðal þeirra voru Þórður, Magnús Kristinsson, fjárfestir og útgerðarmaður, Birkir Kristinsson, fjárfestir, fyrrverandi landsliðsmarkamaður í fótbolta og bróðir Magnúsar, Aðalsteinn E. Jónasson, landsréttardómari og fyrrverandi aðallögfræðingur Gnúps, Ragnar Björgvinsson, fyrrverandi aðallögfræðingur slitanefndar Glitnis, auk endurskoðanda.

Þórður Már Jóhannesson.
Þórður Már Jóhannesson. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert