„Óþægilegri“ vinnutími á kvöldin og um helgar

Drífa segir hugmynd Sigmars ekki hafa komið til tals innan …
Drífa segir hugmynd Sigmars ekki hafa komið til tals innan ASÍ. Samsett mynd

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir hugmynd Sigmars Vilhjálmssonar, athafnamanns og formanns Atvinnufjelagsins, um að jafna stöðu launafólks með grunntaxta, ekki hafa komið til tals hjá hreyfingunni.

„Ég finn það nú ekki að hún leggist sérstaklega vel í okkar fólk,“ segir Drífa, spurð hvort hún telji hugmynd Sigmars raunhæfa.

Segir hún að rök séu fyrir því að kvöld- og helgarálag sé greitt utan eðlilegs vinnutíma. „Það er óþægilegri vinnutími og við höfum byggt okkar launakerfi þannig að það þarf að bæta það upp þegar þú vinnur á óþægilegum tímum,“ segir Drífa og bætir við:

„Okkar aðalsamningaaðili er Samtök atvinnulífsins og við höfum viljað hvetja fyrirtækjaeigendur að sameinast í þann félagsskap til að hafa einn viðsemjanda til að semja við, nógu flóknir eru nú kjarasamningar.“

Tæplega 200 fyrirtæki eru skráð í Atvinnufjelagið, sem stofnað var í nóvember á síðasta ári.

Mun Atvinnufjelagið sitja við kjarasamningsborðið?

„Við höfum hafið samtal við Samtök atvinnulífsins, síðan hafa verið gerðir aðrir kjarasamningar og ég sé ekki að það verði breyting á því," segir Drífa.

„Sérstakt“ ef verkalýðshreyfingin opnar ekki á umræður

Sigmar sér aftur á móti ekki hvers vegna félagið ætti ekki að fá sæti við samningsborðið.

„Ef við fáum ekki sæti við kjarasamningsborðið, sannar það kannski ögn grun manns um að verkalýðshreyfingin nærist á því að hafa SA ein sem viðsemjanda. 70 prósent af launamönnum á Íslandi vinna í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, þannig að það er svolítið sérstakt ef verkalýðshreyfingin ætlar sér ekki að opna á umræður við félag sem gætir hagsmuna meirihluta launamanna á Íslandi.“

Í grein, sem birt var á Vísi í gær, spurði Sigmar hvers vegna dagvinnufólk fái lægra kaup en þeir sem vinna á kvöldin og um helgar. Í kjölfarið skapaðist mikil umræða um hugmyndina.

Segir Sigmar í samtali við mbl.is að hann sé að kalla eftir þörfum breytingum á því hvernig eigi að nálgast komandi kjarasamninga.

Kerfið sé „úr sér gengið og úrelt“

„Þeir sem eru búnir að setja sig á móti þessu opinberlega, ég held að þeir hafi kannski að einhverju leyti misskilið hugmyndina og mögulega ekki alveg kynnt sér málið til hlítar. Ég er ekki að tala um að lækka laun, ég er að tala um að hækka dagvinnulaun og minnka muninn á launum sem þú færð á daginn og þeim sem þú færð á kvöldin.

Hann er bara mjög mikill og hann er hvergi meiri en á Íslandi, þetta er langtum meiri munur en þú finnur á öllum Norðurlöndunum og í Evrópu. Við Íslendingar erum bara sér á báti í þessum mikla mismun,“ segir Sigmar og bætir við:

„Mér finnst þetta bara asnalegt kerfi. Úr sér gengið og úrelt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert