Þórður Már Jóhannesson fjárfestir og Sólveig Pétursdóttir fyrrverandi dómsmálaráðherra voru í dag sýknuð af kröfu Lyfjablóms ehf. sem krafðist samtals 2,3 milljarða króna í skaðabætur vegna háttsemi stjórnenda fjárfestingafélagsins Gnúps. Lyfjablóm var gert að greiða Þórði og Sólveigu hvoru fyrir sig 5 milljónir króna í málskostnað.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur. Málið hafði áður hlotið efnismeðferð fyrir héraðsdómi árið 2019 þar sem Þórður og Sólveig voru sýknuð á grundvelli tómlætis og fyrningarlaga.
Þeirri niðurstöðu var áfrýjað til Landsréttar sem ómerkti dóm héraðsdóms þar sem ekki var talið unnt af hálfu Þórðar og Sólveigar að haga málatilbúnaði sínum þannig að sakarefni málsins yrði skipt, þ.e. um grundvöll skaðabótaábyrgðar annars vegar og fyrningu hins vegar, þar sem þau atriði féllu verulega saman. Af þeim sökum var dómur Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2019 ómerktur og málinu vísað aftur í hérað.
Þórður hafði verið forstjóri félagsins Gnúps, en krafa var gerð á Sólveigu vegna dánarbús eiginmanns hennar, Kristins Björnssonar, sem hún situr í óskiptu. Kristinn hafði farið fyrir fjárfestahópi fjögurra systkina sem áttu félagið Björn Hallgrímsson ehf. sem var einn af eigendum Gnúps, en félagið hét eftir föður systkinanna. Eftir fall Gnúps var nafni Björns Hallgrímssonar breytt í Lyfjablóm og höfðaði félagið málið gegn Þórði og Sólveigu.