Mikill viðbúnaður er á Barnaspítala Hringsins vegna forsjármáls yfir 10 ára dreng og er hópur lögregluþjóna m.a. á svæðinu. Nýverið var úrskurðað að lögheimili barnsins skyldi vera hjá föður þess en drengurinn hefur hingað til verið hjá móður sinni. Nú á að sækja hann á spítalann.
Drengurinn, sem er langveikur, er staddur á spítalanum vegna lyfjagjafar. Móðir drengsins staðfestir í samtali við mbl.is að ekki sé búið að taka drenginn en hún bíður með honum inni á stofunni.
Hún kveðst ekki hafa átt von á því að lögreglan myndi mæta í dag á spítalann og kom þetta henni verulega á óvart.
Samtökin Líf án ofbeldis hafa sent neyðarkall til stjórnvalda og samfélagsins vegna málsins.