Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins, segir sýknudóm Hæstaréttar gera að verkum að lagaleg óvissa ríki um heimildir sveitarfélaga til að innheimta gjöld á borð við innviðagjald.
Hæstiréttur sýknaði fyrr í vikunni Reykjavíkurborg af kröfu Sérverks ehf. sem fór fram á ríflega 120 milljóna krónu endurgreiðslu, auk vaxta, sem fyrirtækið hafði greitt vegna innviðagjalda árið 2018 vegna uppbyggingu í Vogabyggð í Reykjavík.
„Við fórum af stað á sínum tíma með ákveðin álit sem bentu til þess að lagaleg óvissa ríkti um þessi mál. Hagsmunirnir snúast um meira en innheimtu þessa innviðagjalds, þetta snýr að heimildum sveitarfélaga til að innheimta allskonar svona gjöld, á þessum forsendum,“ segir Jóhanna. Sótti Sérverk málið fyrir hönd hóps verktaka.
„Það var á brattan að sækja eftir niðurstöðu Landsréttar en þetta var þannig mál, að við þurftum að fara með það alla leið,“ segir hún en borgin var sýknuð í Landsrétti í nóvember síðastliðinn. Nú sitji verktakar hins vegar uppi með þá niðurstöðu að heimild sé fyrir gjöldunum, sem hafi gríðarlegt fordæmisgildi og skilji verktaka eftir í óvissu um heimildir sveitarfélaga í þessum málum yfirhöfuð.
Eru einhver atriði orðin skýrari eftir dóminn?
„Þeim er eins og í þessu tilviki veitt heimild til þess að fara í einkarréttarlega samninga með innheimtu gjalda og það er þá raunverulega ekki ljóst hvar eða hvernig gjöld er þá hægt að taka upp á að innheimta í framtíðinni, í tengslum við þetta. Þess vegna líka fögnum við því í millitíðinni að það er átakshópur í húsnæðismálum sem skilaði fyrir þjóðhagsráð nýrri skýrslu núna í maí og þar er einmnitt sérstaklega kveðið á um það að það þurfi að skoða hvort skýra þurfi innheimtu þessarra gjalda með bættri lagasetningu. Við teljum það vera staðfestingu á því að þetta er ekki boðlegt fyrir iðnaðinn að vera í þessari óvissu,“ segir hún.
„Núna tekur við það sama, ástæða þess að við fórum í þetta mál er að þetta snýr ekki aðeins að Reykjavík heldur öðrum sveitarfélögum líka. Núna stöndum við eftir með fleiri spurningar um framhaldið og hvernig sveitarfélögin muni þróa þessar innheimtuaðferðir til framtíðar. Það er auðvitað eitthvað sem við verðum að skoða,“ segir Jóhanna í lokin.