Bætur vegna dvalar í sóttvarnahúsi tvöfaldaðar

Fosshótel við Þórunnartún gegndi hlutverki sóttvarnahúss fólks sem kom af …
Fosshótel við Þórunnartún gegndi hlutverki sóttvarnahúss fólks sem kom af hááhættusvæðum, en Pólland var meðal þeirra svæða. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenska ríkinu hefur verið gert að greiða konu sextíu þúsund krónur í bætur vegna dvalar í sóttvarnahúsi. Dvaldi hún þar í tvo sólarhringa gegn mótbárum og þrátt fyrir að eiga kost á heimasóttkví. Fól það í sér ólögmæta frelsisskerðingu. 

Konan er búsett á Íslandi en hefur pólskt ríkisfang. Við komu sína til Íslands frá Póllandi þann 2. apríl í fyrra var hún flutt í sóttvarnahús að Þórunnartúni gegn sínum vilja. Hún hafði gert ráð fyrir því að sæta heimasóttkví, sem var heimilt á þessum tíma fyrir þá sem áttu þess kost. 

Dvaldi hún í sóttvarnahúsinu, þrátt fyrir mótbárur sínar, í tvo sólarhringa, eða þar til mál hennar var tekið fyrir í héraðsdómi. Þar var niðurstaðan sú að hún hefði átt rétt á því að dvelja í heimasóttkví frekar en í sóttvarnahúsi, kysi hún það.

Ómannúðleg og vanvirðandi meðferð

Fékk hún í kjölfarið 30 þúsund krónur í bætur fyrir ólögmæta frelsisskerðingu en höfðaði hún mál þetta í kjölfarið þar sem henni þótti tjónið ekki bætt að fullu. Byggði hún meðal annars á því að sóttvarnayfirvöld hafi brotið í bága við stjórnarskrá með því að láta hana sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð. 

Í dómi héraðsdóms var ekki fallist á að sönnur hefðu tekist um að dvöl í sóttvarnahúsi fæli í sér ómannúðlega og vanvirðandi meðferð. Engu að síður væri ljóst að slík dvöl fæli í sér meiri frelsisskerðingu en dvöl í heimahúsi, meðan á sóttkví stæði. 

Voru bætur því dæmdar að álitum, 60 þúsund krónur. Til frádráttar koma hinar 30 þúsund krónur sem konan hefur fengið nú þegar. Þá fékk konan gjafsókn í málinu og þarf því ekki að greiða lögmannskostnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert