Dr. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar, segir stofnunina hvorki kannast við íslenska fyrirtækið iXplorer né hafa veitt því starfsheimildir. Í Fréttablaðinu í dag er umfjöllun um að kafarar á vegum þess hafi fundið koníaksflöskur ætlaðar Rússakeisara á botni Eystrasalts.
Flöskurnar hafa nú fengið nýtt hlutverk en tappað hefur verið á þær rúmlega 100 ára gömlu koníaki frá sama framleiðanda. Flöskurnar fundust í flaki skipsins SS Kyros, sem var sökkt í síðari heimsstyrjöld, í Botníuflóa á 77 metra dýpi.
Fram kemur einnig að iXplorer ætli sér að gera kannanir á Íslandi. Við strendurnar hérlendis séu um fjögur þúsund flök.
„Vakin er athygli á að allar minjar 100 ára og eldri í sjó við strendur íslands eru eign íslenska ríkisins sbr lög nr. 80/2012. Það er ekki leyfilegt að kafa í flök við Ísland án heimildar Minjastofnunar Íslands sem kannast ekki við fyrirtækið iXplorer né að hafa veitt þeim neinar starfsheimildir en í lok greinar er vísað til hugsanlegra köfuna við Ísland. Það þarf einnig leyfi til að kafa í flök við strendur Evrópulanda,“ skrifar Kristín Huld á Facebook.