„Nú reynir á nýkjörið sveitastjórnarfólk að láta hækkandi fasteignamat ekki fara sjálfkrafa inn í fasteignaskattana heldur endurmeta hlutfallið sem reiknað er eftir.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í föstudagspistli Drífu Snædal, forseta ASÍ.
Eins og fram kemur komið í vikunni hækkar heildarmat fasteigna á Íslandi um 19,9% frá yfirstandandi ári og verður 12.627 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár Íslands fyrir árið 2023. Þetta er umtalsvert meiri hækkun en tilkynnt var um fyrir ári síðan, þegar fasteignamat hækkaði um 7,4 % á landinu öllu.
Ýmsir hafa sagt kerfið gallað, þar á meðal Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Drífa segir að fólk í ASÍ muni fylgjast vel með því í haust þegar fjármálaákvarðanir sveitarstjórna fyrir árið 2023 eru teknar.
„Næsta vers er svo að endurmeta fasteignamatið sjálft og útreikninga á því. Nú verðum við að leggjast á eitt að stemma stigu við dýrtíð sem nú þegar er sligandi fyrir pyngjur heimilanna,“ segir Drífa.