Utanvegahlaupið Salomon Hengill Ultra Trail heldur áfram í dag, laugardag. Það hófst í gær með ræsingu á þeim sem lögðu af stað í 100 mílna hlaupið, eða sem nemur 163 km. Seint í gærkvöldi voru svo keppendur í 100 km hlaupið ræstir, en ræsing í styttri vegalengdirnar fer fram í dag.
Næst á dagskrá er ræsing í 26 km hlaupi þar sem landslið Dana er á meðal keppenda. Um 500 keppendur taka þátt í þessari vegalengd.
Bein útsending er hafin vegna ræsinga í dag og stendur hún meira og minna yfir þangað til að öll hlaup hafa verið ræst og fremstu hlauparar lengstu hlaupanna verða komnir í mark.
Útsendingarnar hefjast alltaf klukkustund fyrir ræsingu og þar verður fylgst með gangi mála, rætt við keppendur og sérstakir gestir fara yfir stöðuna. Hægt verður að fylgjast með útsendingunni hér á mbl.is.
Yfir þúsund manns eru skráðir í hlaupið, en ræst er frá miðbæ Hveragerðis og hlaupið í nágrenni bæjarins og í kringum Hengilssvæðið.
Dagskrá mótsins er eftirfarandi:
Friðleifur Friðleifsson, þjálfari utanvegahlaupa landsliðs Íslands tók saman nokkra punkta um áhugaverða þátttakendur í hlaupunum og hverjum gæti verið gaman að fylgjast sérstaklega með, en rétt er að taka fram að þetta er á engan hátt tæmandi listi.
Hengill 100 mílur (160 km)
Lengsta vegalengd Hengill Ultra eru litlir 160 km. Þessi áskorun er fyrir þá allra hörðustu og í ár eru fimm hlauparar skráðir til leiks, allt karlar og við söknum kvennana en þær stóðu sig frábærlega í fyrra. Davíð Rúnar Bjarnason, boxarinn knái ætlar sér að takast á við þetta verkefni og ekki skemmir fyrir að Michael Schou er einnig skráður en hann er landsliðsþjálfari hjá Hjólreiðasambandinu og fanta góður hlaupari.
Hengill 100 km
Í 100 km hlaupið eru skráðar nokkar rakettur. Til dæmis Maxim Sauvageon , Frakkinn knái sem býr á Íslandi og hefur getið sér gott orð í keppnum hér heima. Þá mætir Hlynur Guðmundsson en hann ætlar sér stóra hluti ef ég þekki hann rétt. Þá er Kjartan Rúnasson skráður en hann er þaulreyndur hlaupari og varð þriðji í 100 km hlaupinu 2021 og svo Felix Starker en hann er líka þaulreyndur í keppnum hér á Íslandi. Helga María Heiðarsdóttir útivistarkempa með meiru ætlar sér að klára þetta verkefni og þá eru einnig skráðar Sigrún B Magnúsdóttir og Silvia Llorens.
Hengill 53 km
Anna Berglind Pálmadóttir, Sigurjón Ernir Sturluson og Þorsteinn Roy Jóhannesson allt landsliðsfólk í utanvegahlaupum eru skráð í 53 km hlaupið. Þau fá heldur betur verðuga keppni frá fyrrum landsliðsfólki því Hildur Aðalsteinsdóttir, Bryndís María Davíðsdóttir og Sigríður B. Einarsdóttir eru allar skráðar og svo eru upprennandi stjörnur eins og Kristján Svanur Eymundsson að banka fast ásamt Hengils kónginum sjálfum en Búi Steinn Kárason sigurvegari í 160 km hlaupinu 2021 er skráður í þessa vegalengd. Þetta verður veisla. Frægir, ó já þeir mæta alltaf í 53 km t.d. Arngrímur Fannar Haraldsson úr Skímó , Karen Kjartansdóttir Grænlandsjökulsfari og svo Sveinn Atli Árnason betur þekktur sem Svenni í Bootcamp. Þá eru margir erlendir hlauparar skráðir í 53 km hlaupið og þar leynast nokkrir sterkir.
Hengill 26 km
Hér eru tæplega 500 skráðir hlauparar og því langt mál að telja upp þá sterkustu en helsta fréttin er sú að landslið Dana í utanvegahlaupum mætir í þessa veglengd og ætlar sér stóra hluti. Þar erum við að fá í heimsókn gífurlega sterka hlaupara , fjórar konur og fjóra karla. Þau fá hins vegar verðuga keppni því Andrea Kolbeinsdóttir landsliðskona ætlar sér að sýna þeim hvernig þetta er gert hér á Íslandi sem og landsliðshlaupararnir Íris Anna Skúladóttir og Þórólfur Ingi Þórsson. Þau eru öll skráð í 26 km hlaupið og munu berjast við Danina.