Landsréttur sýknaði í dag Kópavogsbæ af öllum kröfum hluta erfingja Sigurðar K. Hjaltested, fyrrum ábúanda á Vatnsenda, en erfingjarnir höfðu krafið Kópavogsbæ um að greiða dánarbúi Sigurðar 75 milljarða vegna eignarnáms á landi Vatnsenda árin 1992, 1998, 2000 og 2007.
Héraðsdómur Reykjaness hafði í desember árið 2020 sýknað Kópavogsbæ af öllum dómkröfum varðandi eignarnámið árin 1992, 1998 og 2000, en dæmt bæinn til að greiða dánarbúinu 968 milljónir vegna eignarnámsins 2007. Var málinu áfrýjað til Landsréttar sem sýknaði sem fyrr segir Kópavogsbæ af öllum dómkröfum.
Fjölmargir dómara hafa gengið í málum sem tengjast eignarhaldi og umráðum yfir jörðinni. Upphaf málsins teygir sig til fjórða áratugar síðustu aldar þegar Magnús Einarsson Hjaltested, föðurbróðir Sigurðar, arfleiddi hann að jörðinni. Sigurður lést árið 1966 og endaði jörðin hjá sonarsyni hans, Þorsteini Hjaltested. Deilt hafði verið um hvort rétt hefði verið að láta jörðina ganga til hans, en Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu 2013 að jörðin væri ekki réttmæt eign Þorsteins og systkina hans, heldur dánarbús Sigurðar.
Hæstiréttur dæmdi svo aftur 2015 að ráðstafa ætti beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda til erfingja Sigurðar, en ekki sonarsonarins Þorsteins sem hafði óbeinan eignarrétt að jörðinni. Hafði skiptastjóri lagt til að beina eignarréttinum yrði ráðstafað til Þorsteins og hafði héraðsdómur staðfest það. Hæstiréttur sneri hins vegar dómi héraðsdóms við.
Hæstaréttardómarar reyndu að lesa í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested til að greina vilja hans. Niðurstaða þeirra var að eignarrétturinn hefði færst til Sigurðar frænda hans en eftir það hefði aðeins óbeini eignarrétturinn, það er ábúðar- og umráðaréttur, færst áfram. Þar sem erfðaskráin hefði ekki mælt fyrir um afdrif þeirra réttinda yrði að ráðstafa þeim til lögerfingja Sigurðar eftir almennum reglum erfðalaga.
Í dómi Landsréttar í dag er staðfest niðurstaða héraðsdóms um að kröfur vegna eignarnámsinis 1992, 1998 og 2000 væru fyrndar. Farið er yfir þau fyrirmæli sem voru í erfðaskrá Magnúsar um að umráðaréttur á jörðinni væri hjá elsta syni ábúanda jarðarinnar hverju sinni. Samkvæmt erfðaskránni yrði ráðið að ábúandi hverju sinni ætti rétt til að hirða allan arð sem félli til af eigninni, hvort sem það væri vegna búskapar eða annarra tekna, auk þess sem ábúandi skyldi eiga tilkall til bóta fyrir landspjöll á jörðinni. Segir Landsréttur því að ætla verði að það hafi verið vilji Magnúsar að bætur vegna eignanáms rynnu almennt til ábúanda jarðarinnar hverju sinni. Hefði Magnús því ráðstafað ríkum afnota- og umráðarétti jarðarinnar til langrar framtíðar og þar með hafi rétturinn til að framselja eignina verið slitinn frá hinum beina eignarrétti og fylgdi ekki heldur hinum óbeinu eignarréttindum.
Lagði Landsréttur því til grundvallar í málinu að eigendur beina eignarréttarins, sem nú tilheyrði dánarbúi Sigurðar, gætu ekki vænst tekna af jörðinni um mjög langa framtíð og væri tekjuöflunarvirði beina eignarréttarins því ekkert. Þannig væri forsenda matsmanna um að eigendur beina eignarréttarins kynnu að eiga einhvern framsalsrétt sem fæli í sér sérstakt virði við eignarnám ekki í samræmim við efni erfðaskrárinnar og vilja Magnúsar. Samkvæmt því taldi Landsréttur erfingja Sigurðar ekki hafa sannað að þeir hafi orðið fyrir tjóni vegna eignarnámsins 2007.