Óvissa um fjármögnun frumvarps Lilju

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ef þessar athugasemdir sem fjármálaráðuneytið gerir eru rangar þá þarf enginn að hafa áhyggjur, þá er fjárlagaliðurinn sem ráðuneytið er með bara fullnægjandi og þá eru væntanlega allir ánægðir,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur viðskipta- og menningarmálaráðherra. 

Frumvarpið á að leiða til þess að endurgreiðslur til stærri kvikmyndaverkefna, úr ríkissjóði, verði hækkaðar í 25 prósent af heildarframleiðslukostnaði, í 35 prósent. Lilja hefur lýst því yfir að þetta muni koma til með að skila sér til baka í auknum tekjum ríkissjóðs. 

Engar efnislegar athugasemdir

Frumvarp Lilju er nú til umræðu í atvinnuveganefnd, en fjármálaráðuneytið gerði athugasemdir við að frumvarpið væri vanfjármagnað. 

„Þegar frumvörp eru lögð fyrir Alþingi ber að gera grein fyrir því hvernig frumvarpið er fjármagnað og það er á ábyrgð viðkomandi ráðuneyta að gera grein fyrir því. Að mati fjármálaráðuneytisins þótti tilefni að árétta að þetta væri ekki gert með fullnægjandi hætti.“

Bjarni og Katrín benda bæði á að það sé óvissa …
Bjarni og Katrín benda bæði á að það sé óvissa um fjármögnun frumvarps viðskipta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Eggert

Bjarni bendir á að það muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs ef auka á útgjöld. Lilja hefur þó sagt að frumvarpið skili sér í meiri tekjum en kostnaði. 

"Það birtist þá væntanlega á tekjuhlið ríkisfjármálanna. Við erum með ákveðna opinbera spá um það hvernig tekjur ríkisins munu þróast og það er það sem við notum.“

Hann kveðst þó ekki hafa neinar efnislegar athugasemdir við frumvarpið. 

Í samræmi við stjórnarsáttmála

 „Í stjórnarsáttmála er fjallað um breytingar á stuðningskerfi við kvikmyndir og frumvarp menningar- og viðskiptaráðherra var hér afgreitt út úr ríkisstjórn,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Þá segir hún að það liggi fyrir óvissa um fjármögnun, sem þurfi þó ekki að koma á óvart þegar um kerfi af þessu tagi er að ræða. 

„Þetta hangir á eftirspurninni líka, við getum ekki gert að því skóna hver kostnaðurinn verður fyrr en eftirspurnin skýrist svo það er eðlilegt að þingið kafi ofan í þau málefni þegar þau eru með þetta til meðferðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert