Gamalt mál tók óvænta stefnu

Bílflakið í fjörunni undir Óshlíðarveginum í september 1973.
Bílflakið í fjörunni undir Óshlíðarveginum í september 1973. Ljósmynd/Ljósmyndasafn Ísafjarðar

Lögreglan á Vestfjörðum er með afar óvenjulegt mál til meðferðar eins og fram hefur komið.

Í vikunni sendi hún frá sér fréttatilkynningu þar sem frá því var greint að líkamsleifar hafi verið grafnar upp úr kirkjugarði á Vestfjörðum.

„Um var að ræða líkamsleifar einstaklings sem lést af slysförum fyrir nokkrum síðan. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hafði áður, með vitund og samþykki nánustu aðstandenda hins látna, fengið dómsúrskurð til þessara aðgerða.“

Hinn látni hét Kristinn Haukur Jóhannesson og lést aðeins nítján ára gamall af slysförum á veginum um Óshlíð á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals í Ísafjarðardúpi. Þannig var í það minnsta gengið frá málinu haustið 1973 en nú eru blikur á lofti eftir tilkynningu lögreglunnar.

Frá vettvangi í september 1973.
Frá vettvangi í september 1973. Ljósmynd/Ljósmyndasafn Ísafjarðar.

„Aðdragandi þessarar aðgerðar er sá að lögreglunni á  Vestfjörðum hafði borist ábending um að umrætt slysaatvik hafi ekki verið upplýst nægjanlega á sínum tíma. Þrátt fyrir að langur tími sé liðinn eru taldar líkur á því að hægt sé að upplýsa nánar um tildrög atviksins sem um ræðir,“ sagði einnig í tilkynningunni.

Morgunblaðið falaðist eftir úrskurðinum hjá Héraðsdómi Vestfjarða en því var hafnað með þeim skilaboðum að slíkir úrskurðir væru aldrei afhentir öðrum en þeim sem hafa aðkomu að málum.

Víða á Óshlíðinni var bratt frá veginum niður í fjöruna.
Víða á Óshlíðinni var bratt frá veginum niður í fjöruna. mynd/bb.is

Skildi eftir sig son

Kristinn var af Barðaströndinni og var grafinn á þeim slóðum. Hann hafði verið til sjós í Bolungarvík og var þar árin á undan. Þar eignaðist hann son ári fyrir andlátið. Kristinn fannst látinn fyrir neðan Óshlíðarveginn og lá fyrir ofan bifreið sem var neðar í fjörunni. Ökumaðurinn og annar farþegi fóru fótgangandi inn í Hnífsdal og tilkynntu um að bifreið sem þau voru í ásamt Kristni hefði farið út af veginum. Eru þau bæði á lífi en ökumaðurinn er um tíu árum eldri en hinir tveir farþegarnir.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka