Sjósundhópurinn Bárurnar, hyggst leggja af stað í boðsundferð sína yfir Ermasundið klukkan fjögur aðfaranótt þriðjudags.
Ætlunin var að leggja af stað í nótt en veðrið snerist bárunum í óhag og því þurfti að fresta sundinu um sólarhring.
Það kemur þó ekki að sök, enda voru Bárurnar undir það búnar að veður og vindar kæmu til með að stjórna ferðatímanum og þær gáfu sér því sjö daga. Þær hafa nýtt tímann vel í að kynnast bænum, æfa sundtökin og njóta dvalarinnar.
„Við viljum leggja af stað í háflóðinu, en straumurinn er þá með okkur til að byrja með, þess vegna leggjum við af stað um hánótt,“ segir Elsa Björk Valsdóttir, ein Báran.
Bárurnar nýta daginn til þess að ná góðri lokaæfingu í sjónum fyrir komandi átök. Á morgun ætla þær sér að sofa og nærast vel og fara í göngutúr. Elsa segir hópinn þó ekki vera að vinna sérstaklega að því að snúa sólarhringnum við.
„Við erum að stefna að því að synda þetta á átján klukkustundum þar sem hver fer þrjár umferðir. Við vonum að það gangi upp.“
Bárurnar hafa ákveðið munu styðja við Stómasamtök Íslands með þrekraun sinni.
Ásamt Elsu Valsdóttir samanstendur sjósundhópurinn Bárurnar af eftirfarandi: Sigríði Lárusdóttur, Hörpu Leifsdóttur, Jórunni Atladóttur, Guðmundu Elíasdóttur og Bjarnþóru Egilsdóttur.