Umferðarslys varð á níunda tímanum í gærkvöldi í miðbæ Reykjavíkur. Bifreið var ekið á hjólreiðamann og ók hún síðan af vettvangi.
Að sögn vitna hafði ökumaður bifreiðarinnar verið að þenja bifreiðina og flauta áður en hann ók á hjólreiðamanninn. Hann datt í götuna og bifreiðinni var í kjölfarið ekið yfir hjólið. Ekki er getið um áverka en hjólreiðamaðurinn vildi ekki fá sjúkrabifreið á vettvang. Málið er í rannsókn, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Um hálfníuleytið í gærkvöldi var tilkynnt um húsbrot og eignaspjöll í miðbæ Reykjavíkur. Maður var sagður hafa ruðst inn í íbúð og lagt þar allt í rúst. Hann var sagður hafa brotið tvær rúður og yfirgefið síðan íbúðina. Kona með börn var í íbúðinni og náði hún að komast inn í herbergi og læsa.
Tilkynnt var um líkamsárás á bar í Breiðholti á þriðja tímanum í nótt. Sá sem varð fyrir árásinni var fluttur með sjúkrabifreið á bráðadeild. Árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu.
Um klukkan hálfníu í gærkvöldi var tilkynnt um umferðarslys í Breiðholti eftir að maður datt af rafmagnshjóli. Hann var töluvert kvalinn og gat lítið tjáð sig. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á bráðadeild.
Laust fyrir klukkan fjögur í nótt var bifreið stöðvuð í miðbæ Reykjavíkur. Ökumaðurinn reyndist vera sviptur ökuréttindum. Um klukkustund síðar var sami ökumaður stöðvaður aftur í sama hverfi og var hann þá kærður fyrir að aka yfir gatnamót gegn rauðu ljósi og akstur án réttinda.
Bifreið var stöðvuð á Breiðholtsbraut í Árbænum á þriðja tímanum í nótt. Ökumaðurinn reyndist vera 16 ára og hefur því aldrei öðlast ökuréttindi. Tilkynnt var um málið til foreldra og Barnaverndar.