„Eins og að synda í þvottavél“

Elsa sagði að þær Bárur væru þegar farnar að skipuleggja …
Elsa sagði að þær Bárur væru þegar farnar að skipuleggja annað sund á morgun, að sjálfsögðu í sjónum. Aðsend/Sigríður Valsdóttir

Bárurnar, sundhópurinn sem synti yfir Ermasundið til styrktar Stómasamtökum Íslands, kom í land á áttunda tímanum að staðartíma, eftir um 16 tíma sundferð.

„Þetta hafðist, með herkjum,“ segir Elsa í samtali við mbl.is en þær voru nýkomnar upp á bryggju þegar blaðamaður náði tali af þeim.

„Ef við hefðum verið lengur þá hefðum við ekkert komist í land,“ segir hún og bætir við að nær metersháar öldur hafi tekið á móti þeim þegar þær nálguðust Frakklandsstrandir.

„Þetta var svolítið eins og synda í þvottavél.“

Bárurnar þegar þær mættu til Dover.
Bárurnar þegar þær mættu til Dover. Ljósmynd/ Elsa Valsdóttir

Lokaspretturinn sá besti

Elsa segir að þær hafi ekki endilega búist við að klára spölinn, enda stefndi í vonskuveður. Því sé sigurinn sætari. „Við erum bara hrikalega ánægðar með okkur.“

Þið gáfust ekkert upp?

„Nei það sko var ekkert gefist upp og það var allt gefið í hvern einasta sprett,“ segir hún en hver og ein þeirra tók þrjá sundspretti, um fimm kílómetra í hverjum sprett.

„Hver og ein var að gefa sinn besta sprett í síðustu umferðinni.“

Elsa segir þær Bárurnar nú á leið upp á hótel þar sem þær ætli að skála „Svo ætlum við að sofa í sólarhring,“ gantast Elsa en þær voru mættar niður á bryggju í Dover í Englandi upp úr tvö í fyrrinótt.

„Það er bara hvíld, það er ekkert annað. Það er bara að hvíla og njóta.“

Ef rýnt er í myndina má sjá Bjarnþóru þegar hún …
Ef rýnt er í myndina má sjá Bjarnþóru þegar hún náði landi við Frakklandsstrendur. Aðsend/Sigríður Valsdóttir

Annað sund á morgun

Spurð hvað tekur síðan við á morgun, sagði Elsa að þær væru þegar farnar að skipuleggja annað sund á morgun, að sjálfsögðu í sjónum.

Greint var frá því fyrr í kvöld að ein í hópnum, Sigríður Valsdóttir, hefði svarið að hún myndi aldrei synda í söltum sjó framar eftir Ermarsundið. Ekki þurfti mikið til að falla frá því loforði.

Enginn heitur pottur var á ströndinni þar sem þær komu í land. „Það er engin aðstaða, það eru engar sturtur, það er enginn pottur. Þetta er bara strönd.“ Þær geta þó farið í heitt bað, og auðvitað skálað.

En þið ætlið allavega að skála, ekki satt?

„Jú nú ætlum við að skála. Ég held að við séum alveg búnar að vinna okkur það inn.“

Bár­urn­ar sam­an­standa af Guðmundu Elías­dótt­ur, Elsu Vals­dótt­ur, Sig­ríði Lár­us­dótt­ur, Hörpu Leifs­dótt­ur, Jór­unni Atla­dótt­ur og Bjarnþóru Eg­ils­dótt­ur.

Leiðin sem þær fóru var ekki beint bein. Beina leiðin …
Leiðin sem þær fóru var ekki beint bein. Beina leiðin er um 34 kílómetrar. Skjáskot/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert