Eins og greint hefur verið frá þá fór bjórsala fram í fyrsta skipti á Laugardalsvelli í gær en það hafði engin áhrif á hegðun stuðningsmanna á leiknum í gær að sögn lögreglu.
Lögreglan þurfti ekki að grípa til neinna aðgerða í gærkvöldi eftir leikinn og var enginn aukinn viðbúnaður lögreglu í kringum Laugardalsvöll. Þetta staðfestir Kristján Helgi Þráinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn aðgerðar- og skipulagsdeildar hjá lögreglunni, í samtali við mbl.is í dag.
Aðspurður segir Kristján allt hafa farið vel fram. „Allt hefðbundið hjá okkur, í rauninni ekkert vesen,“ segir Kristján og bætir við að hann hafi ósköp lítið að segja um gærkvöldið.
Spurður hvort að viðbúnaður lögreglu hafi verið aukinn vegna bjórsölu á leiknum svarar Kristján því neitandi og nefnir að um hafi verið að ræða lágmarks löggæslu á leiknum. Bætir hann við að stuðningsmenn hafi verið líflegir en fyrst og fremst prúðir.
Spurður hvort að sömu sögu væri hægt að segja af hegðun stuðningsmanna Albaníu á leiknum segir Kristján að þeir hafi sömuleiðis verið mjög fínir og flottir. „Ég sá að það var einn sem hoppaði þarna inn á hlaupabrautina en hann baðst strax afsökunar og sagðist hafa gleymt sér í fagnaðarlátunum og hoppaði strax til baka,“ segir Kristján.
Bendir Kristján á að allir eigi það til að missa sig í fagnaðarlátum og að Albanar hafi verið skemmtilegir og háværir eins og á að vera á fótboltaleikjum.