Funda um afleiðingar stríðsins í Úkraínu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fer með varnarmál fyrir hönd …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fer með varnarmál fyrir hönd landsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Varnarmálaráðherrar Norðurhópsins, óformlegs samstarfsvettvangs Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna, Bretlands, Hollands, Póllands og Þýskalands, funda á Íslandi í dag og á morgun, miðvikudag. Ísland fer með formennsku í hópnum í ár en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fer með varnarmál fyrir hönd landsins og sækir fundinn.

„Eðli málsins samkvæmt er stríðið í Úkraínu fyrst og fremst á dagskrá, sem og áhrif og afleiðingar þess bæði á öryggis- og varnarmál almennt og á okkar svæði sem og þær breytingar sem það hefur í för með sér, bæði nú og til framtíðar,“ segir Þórdís.

„Þetta er heilmikið tækifæri til að eiga þessi samskipti. Hluti fundarins er svolítið óformlegur sem mér þykir alltaf mjög gott, þar sem maður nær dýpra samtali við þessa kollega.“

Áherslur Íslands taki mið af stríðinu

Segir Þórdís bæði tækifæri og ábyrgð fylgja því að Ísland fari með formennsku í hópnum. „Helstu áhrifin eru þau að það opnar dyr fyrir þéttara og ríkara samtali og samstarfi þegar landið er með formennsku. Við berum auðvitað ábyrgð á öllum undirbúningi fyrir þennan fund og aðdragandanum að honum.“

Þá hafi utanríkisþjónustan hér á landi greiðari leið að utanríkisþjónustu samstarfsríkjanna. Bendir hún á að áherslur Íslands sem formennskuríkis taki mið af stríðinu í Úkraínu.

Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert